2. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn: Lagaleg staða. Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. |
– 2. gr. laga um breytingu á lögum nr. 96/2009 um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. |
H ér að ofan er rakin 2. grein Icesave-laganna nýju, sem alþingi samþykkti þann 30. desember en forseti Íslands kvaðst í gær hafa synjað staðfestingar. Jafnvel í þeim lögum er sérstaklega tekið fram að ekkert í lögunum feli í sér nokkra viðurkenningu á því að íslenska ríkinu beri skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.
Jafnvel nýju Icesave-lögin samþykkja engar skuldbindingar í þessa veru. Icesave-lögin eldri gerðu það ekki heldur. Enda eru engar „skuldbindingar okkar“ til, í þessu máli.
Engu að síður stóð hver skjálfandi stjórnmálamaðurinn á öxlum annars í gær, óðamála að segja að auðvitað myndu Íslendingar „standa við skuldbindingar sínar“. Fréttamenn hafa talað svona lengi og nú er svo komið að fólk á götum úti er sumt byrjað að trúa því að einhvers staðar séu „skuldbindingar okkar“, sem við megum ekki hlaupa frá.
En þó nú sé reynt að rugla umræðu með falsi í slíka veru, þá má það ekki takast. Því skal hér endurtekið og líklega ekki í síðasta sinn: Það eru engar „skuldbindingar okkar“ fyrir hendi í málinu. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands eru hins vegar, með einbeittri þjónustu ríkisstjórnar Íslands, að reyna að hræða Íslendinga til að skuldbinda sig, en það hefur enn ekki tekist.
Ísland hefur aldrei viðurkennt greiðsluskyldu í málinu, hvorug Icesave-lögin gera það. Og það sem meira er, hvorug Icesave-lögin hafa lagt ríkisábyrgð við nokkurri einustu krónu. Lögin heimila ráðherra að gera það, en hann hefur ekki nýtt heimildina.
Í ÞESSU MÁLI ERU EKKI TIL NEINAR „SKULDBINDINGAR OKKAR“.
ÞAÐ ER ENGIN RÍKISÁBYRGÐ Á ICESAVE-SKULDUM LANDSBANKANS, HEFUR ALDREI NOKKURN TÍMA VERIÐ, OG VERÐUR ALDREI – NEMA ÍSLENDINGAR TAPI SINNI EIGIN ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU.