Helgarsprokið 3. janúar 2010

3. tbl. 14. árg.

H vaða stjórnmálaflokkur er þetta?

Hann vildi nýtt Ísland eftir bankahrunið, alvöru hreingerningu: Til þess lyfti hann félagsmálaráðherra fyrri ríkisstjórnar í stól forsætisráðherra. Og iðnaðarráðherrann gerði hann að utanríkisráðherra. Formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins, fyrrverandi stjórnarformaður Kauphallar Íslands og lærifaðir viðskipta- og hagfræðimenntaðra á Íslandi um árabil var gerður að viðskiptaráðherra. Þingmennirnir með lengstu þingsetuna að baki leiða ríkistjórnarsamstarfið.

Flokkurinn vill að náttúran njóti vafans: Fyrsta verk formanns hans sem sjávarútvegsráðherra var að staðfesta ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um leyfi til veiða á hrefnu og langreyði.

Flokkurinn er á móti stóriðjubrjálæðinu: Nýtt álver er að rísa í Helguvík.

Flokkurinn er á móti virkjanabrjálæðinu: Nýtt álver, sem þarf mikla orku, er að rísa í Helguvík og nýtt orkufrekt gagnaver í Reykjanesbæ.

Flokkurinn er á móti einkabílismanum: Á landsfund hans komu jafnmargir á hjóli og flestir eiga að foreldrum. Eitt fyrsta verk varaformanns flokksins sem menntamálaráðherra var að taka ákvörðun um að eyða peningum, sem ekki eru til í ríkissjóði, í byggingu stærsta bílastæðahúss landsins.

Flokkurinn vill dreifa byrðunum réttlátar: Gagnaverið í Reykjanesbæ hefur gert framvirkan samning við ríkisstjórn flokksins um að lenda ekki í skattahækkunum hennar eins og annar atvinnurekstur í landinu. Eigendur gagnaversins eru láglaunafólkið hjá Novator og venture-capital sjóðnum General Catalyst Partners.

Flokkurinn var andvígur samstarfi Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn: Engin stjórnmálamaður á Íslandi hefur átt í jafnmiklu og -nánu samstarfi við Alþjóðagjaldaeyrissjóðinn og formaður hans sem fjármálaráðherra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kominn til að vera.

Flokkurinn var andvígur því að íslenska ríkið gengi í ábyrgðir fyrir Icesave skuldir einkafyrirtækis: Formaður flokksins hefur lagt pólitískt líf sitt og ríkisstjórnarinnar að veði til að setja lög um ríkisábyrgð á Icesave skuldunum.

Flokkurinn var á móti „persónudýrkun“ og „foringjavæðingu“ stjórnmálanna: Flokksmenn klæðast því nærhöldum með mynd af formanni sínum.

Flokkurinn vildi tryggja þjóðaratkvæði um öll stórmál: Hann felldi tillögu um þjóðaratkvæði um aðildarumsókn að ESB.

Flokkurinn vildi tryggja þjóðaratkvæði um öll stórmál: Hann felldi tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð á Icesave.

Flokkurinn var andvigur aðild Íslands að ESB: Eitt fyrsta verk ríkisstjórnar hans var að sækja um aðild að ESB.

Flokkurinn er andvígur leyndarhyggju og pukri, allt upp á borðum takk: Kjósendur voru ekki upplýstir um alvarlega stöðu mála í viðræðum við Breta og Hollendinga fyrir kosningar í apríl 2009. Þvert á móti sagði formaður flokksins von á „glæsilegri niðurstöðu“ í viðtali við mbl.is 23. mars 2009.

Flokkurinn er andvígur leyndarhyggju og pukri, allt upp á borðum takk: Greiða átti atkvæði um Icesave samninginn á Alþingi án þess að þingmenn fengju að kynna sér gögn málsins.

Flokkurinn er andvígur leyndarhyggju og pukri, allt upp á borðum takk: Þegar síðara Icesave frumvarpið var samþykkt á þingi að kvöldi 30. desember 2009 höfðu borist ný gögn um málið til þingsins fyrr um daginn. Og hefðu haldið því áfram ef stjórnarmeirihlutinn hefði ekki látið forseta þingsins afþakka frekari upplýsingar er líða tók á daginn.

Flokkurinn hefur gagnrýnt að ríkisbankar hafi verið einkavæddir án nægilegs gagnsæis: Flokkurinn hefur nú einkavætt tvo nýju ríkisbankanna án lagaheimildar frá Alþingi og án þess að vitað sé hverjir keyptu.

Flokksmenn hafa verið mjög andvígir skoðanakúgun og þöggun af öllu tagi: Skömmu eftir að flokkurinn komst til valda kærði hann vefrit fyrir að auglýsa þá staðreynd að enginn stjórnmálamaður hefði hagnast meira á „eftirlaunaósómanum“ en formaður hans. Kæran barst vefritinu frá „miðlægum kosningastjóra“ flokksins og var byggð á þeim skelfilega glæp að hafa birt venjulega mynd af hans hátign formanninum. Á meðan létu flokksfélagar útbúa barmmerki með mynd af formanni annars flokks.

Ein aukavísbending að lokum: Flokkurinn var sagður fullur af miklu hugsjónafólki.