Hefði niðurstaða könnunarinnar verið rétt mætti ljóst vera að ung kona gæti vart tekið verri karríerákvörðun en að fara í nám á Bifröst. En til allrar hamingju, fyrir skólann, var könnunin þeirra arfa-vitlaus og illa unnin. Svo illa unnin að ef háskólanemi skilaði slíku verkefni fengi hann það líklega í hausinn með ábendingu um að finna sér annan vettvang í lífinu. Daginn eftir var upplýst að könnun, sem gerð hafði verið nokkru áður, á launum útskriftarnema frá HR, hefði ekki sýnt neinn kynjabundinn launamun. Sú könnun hafði ekki vakið jafnmikla athygli fjölmiðla og bomban frá Bifröst eða hinar vikulegu tilkynningar héðan og þaðan um að launamunur kynjanna hafi ekki breyst í fimmtán ár. |
– Anna Stella Pálsdóttir mannfræðingur í greininni „Hættulegur femínismi“ í Morgunblaðinu 20. maí 2007. |
Femínisminn nærist á ótíðindum. Alveg á sama hátt og hin megin stoð sósíalismans í byrjun 21. aldar, umhverfishyggjan. Og alveg á sama hátt og sósíalismi 20. aldarinnar, stéttahyggjan, gerði. Nú er níðst á konum, stokkum og steinum en hagmunir öreiganna og verkafólksins eru gleymdir. Femínisminn er sport háskólakvenna og umhverfishyggjan tekur störfin af verkafólki. Það rignir yfir menn svartagallsrausi um launamun kynjanna og veika stöðu konunnar að öðru leyti. Alveg eins og súrt regn, svifryk, gróðurhúsalofttegundir, ósoneyðandi efni, þrávirk efni eru daglega á forsíðum blaða og fremst í fréttatímum.
Anna Stella Pálsdóttir benti á það í grein sinni í Morgunblaðinu á sunnudaginn að femínisminn sé orðinn stofnun með sjálfstæða hagsmuni. Þetta eru orð að sönnu. Fjöldi manna hefur nú atvinnu af ýmiss konar jafnréttisnefndum,- ráðum og -verkefnum. Stórskuldug sveitarfélög ráða sér jafnréttisfulltrúa og litlar sem stórar ríkisstofnanir sömuleiðis. Hvaða áhrif hefði það á þennan iðnað allan saman ef það kæmi til að mynda upp úr kafinu að hinn meinti launamunur kynjanna sé ekki til staðar? Þess vegna leggur jafnréttisiðnaðurinn mikið upp úr því að launamunurinn sé til staðar. Hann er orðinn hinn pólitíski rétttrúnaður. Helst má ekki heyrast í þeim sem efast en ef það heyrist í þeim er reynt að láta líta út fyrir að þeir séu ekki alveg í lagi. Það liggur hins vegar auðvitað fyrir að launakannanir þær sem sýna allt að 15% mun á launum kynjanna geta ekki tekið tillit til allra þeirra þátta sem hafa áhrif á laun manna. Þegar kynin greinast svo í stórum hópum í mismunandi störf er engin leið að bera störf hvors kyns saman við önnur „sambærileg“ störf af nokkru viti. Og fleira kemur til. Snjólfur Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands varpaði þessari kenningu fram í Morgunblaðinu fyrir tveimur árum:
Þá getur verið freistandi að draga þá ályktun að konunum í hópnum séu greidd lægri laun er körlunum vegna þess að þær eru konur. Sú ályktun getur verið hæpin. Ég hef sterkan grun um að í einkageiranum megi í mörgum tilfellum skýra þennan óútskýrða launamun kynjanna með tveimur þáttum, en almennt liggja ekki fyrir upplýsingar um þessa þætti. Fyrri þátturinn er heildartími sem viðkomandi hefur fengið í undirbúning fyrir viðkomandi starf, með vinnu við svipuð störf eða á anna hátt. Seinni þátturinn er hve vinnan er framarlega í forgangsröðuninni þegar eitthvað annað en vinnan kallar á tíma starfsmannsins, einkum þörf ættingja fyrir að viðkomandi sinni honum á einn eða annan hátt. |
En hvaða áhrif hefur það á konur – og viðhorf karla til þeirra – að femínistar stilli konum ætíð upp sem minni máttar? Grein sinni lýkur Anna Stella á eftirfarandi orðum:
Alvarlegasti löstur femínismans er þó ekki rangfærslurnar heldur sú staðreynd að hann er beinlínis skaðlegur konum. Sé raunin sú að konur sætti sig við lakari kjör en karlar ætti að sannfæra þær um að þær séu jafnokar þeirra og allir vegir færir (eins og flestar okkar vita fyrir). Í stað þess að reyna daglega að brjóta konur niður með endalausu tali um að staða þeirra sé næsta vonlaus því þær verði ekki metnar að verðleikum.
Skaðsemi femínismans liggur ekki hvað síst í fordómum í garð þess sem þykir kvenlegt og minnimáttarkenndarblandaðri aðdáun á því sem talið er til karlmannlegra einkenna. Á meðan öll áherslan er á að jafna hlut kynjana í ,,karlagreinum“ vanrækja feministar, og líta nánast niður á, konur í ,,kvennastéttum“. Heimavinnandi húsmæður verða verst úti en konur í kennarastétt og heilbrigðisþjónustu koma þar fast á eftir (verkakonur sjást ekki á radar femínista). Tekjur þessara undirstöðustétta samfélagsins, þar sem konur eru í meirihluta, eru alltof lágar og þ.a.l. meðaltekjur íslenskra kvenna. Þessu lítur femelítan framhjá. Vissulega eru þeir til sem meta verðleika fólks eftir kynferði, aldri eða öðrum fæðingarþáttum. Hins vegar er fráleitt að halda því fram að til sé samsæri um að halda konum niðri í launum. Slíkt skaðar fyrst og fremst konur. Það er tímabært að jafnréttismál fari að snúast um jafnrétti allra fremur en viðhald og eflingu stofnana femínismans. |