Laugardagur 26. maí 2007

146. tbl. 11. árg.

Þ að er ekki aðeins á Íslandi sem vinstri menn halda því fram að hinir tekjulægri sitji eftir og jöfnuðurinn minnki. Vinstri menn halda slíkri umræðu gangandi víðast hvar, nema ef til vill í ríkjum á borð við Kúbu og Norður-Kóreu. Af einhverjum ástæðum hafa þeir lítinn áhuga á ástandi almennings í slíkum ríkjum. Eitt þeirra landa þar sem vinsælt er að halda því fram að kapítalisminn sé að gera út af við þá tekjulægstu er Bandaríki Norður-Ameríku. Nýleg rannsókn fjárlagaskrifstofu þingsins þar í landi sýnir hins vegar að þessar áhyggjur eru óþarfar, að því er fram kemur í The Wall street Journal. Tekjur 20% tekjulægstu barnafjölskyldnanna hækkuðu um 78% á árunum 1991-2005, sem er mun meiri hækkun en hjá nokkrum öðrum fimmtungi.

WSJ bendir einnig á að það er mikil hreyfing á fjölskyldum á milli tekjuhópa, þannig að samanburður af þessu tagi sé að því leyti villandi að ekki sé verið að bera saman sömu fjölskyldurnar. Viðvarandi fátækt er með öðrum orðum fátíð, en fátækt er oftast tímabundið ástand vegna sérstakra aðstæðna.

Til að leiðrétta fyrir þessu skoðaði fjárlagaskrifstofan aðstæður hjá sömu fjölskyldunum á tímabilinu 2001-2003 og fékk út að hjá meðalheimilinu hækkuðu tekjurnar um nær 45%. Annað sem fjárlagaskrifstofan fann út var að tekjur fátækra heimila með kvenmann sem fyrirvinnu tvöfölduðust á árunum 1991-2005. Það er líka athyglisvert að á sama tíma og fátækustu Bandaríkjamennirnir bættu kjör sín með þessum hætti hækkaði hlutur launatekna á kostnað bóta í tekjum heimilanna. Bætur snarminnkuðu sem hlutfall af tekjum heimilisins, en stærsta skýringin á batnandi hag hinna tekjulægstu var að launatekjur hækkuðu.

Þetta þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart, því að atvinnuleysi er algeng orsök fátæktar, eins og menn gætu svo sem gert sér í hugarlund. En þó að þetta séu augljós sannindi, einblína vinstri menn á skort á bótum en ekki skort á störfum þegar þeir vilja berjast gegn fátækt. Og ekki nóg með það, þeir berjast oft fyrir aðgerðum sem draga úr atvinnusköpun á sama tíma og þeir láta eins og þeir hafi áhyggjur af tækjulægstu hópum samfélagsins. Þessi misráðna barátta vinstri manna hefur víða um heim orðið til þess að allt of margir sitja fastir í fátæktargildrum í stað þess að eiga þess kost að vinna sig út úr erfiðleikunum.