Helgarsprokið 27. maí 2007

147. tbl. 11. árg.

S íðast þegar sósíalisti var forseti Frakklands, sem var árið 1995, var það þegar mál manna að franskt efnahagslíf væri orðið staðnað og að völd verkalýðshreyfinganna þar í landi væru ekki bara mikil, heldur var þeim ítrekað beitt til að koma í veg fyrir umbætur.

Hvort lúffar Sarkozy eins og forveri hans, eða hefur hann nægilega sterk bein til að þrauka og bíða uns breytingarnar ná bæði að lækka atvinnuleysið í landinu og auka hagvöxt?

Það voru því allnokkrar vonir bundnar við Jacques Chirac þegar hann flutti í forsetahöllina fyrir 12 árum. Hann hafði reyndar ekki verið jafn afdráttarlaus í málflutningi sínum og Nicholas Sarkozy í nýafstöðnum forsetakosningum, en engu að síður þótti ljóst, að breytinga var þörf. Ágætis mælikvarði á þetta ástand var sú staðreynd, að franskir frumherjar virtust í æ meira mæli líta svo á, að það væri töluvert vænlegra til árangurs að reka fyrirtæki í Bretlandi Thatcher, Majors og svo Blairs en heima við.

Tilraunir Chiracs fóru hins vegar út um þúfur, og raunar svo sneypulega að hægrimenn hafa margir hverjir jafnvel enn þá minna álit á honum en meintir andstæðingar hans, sósíalistarnir. Sérhverri tilraun til umbóta, sem Chirac hleypti af stokkunum, nú síðast árið 2003, lauk með því að hann lúffaði fyrir fjöldamótmælum á götum úti. Umbæturnar voru þynntar út í hreina gagnleysu og eflaust stundum í eitthvað verra en það sem þær áttu að laga. Tengsl Chiracs við spillingu, sér í lagi á meðan hann gegndi stöðu borgarstjóra Parísar, gerðu lítið til að auka álit manna á honum. Chirac fer úr forsetahöllinni við svipað ástand og hann flutti í hana; efnahagurinn er staðnaður og Frakkland hefur dregist aftur úr öðrum þjóðum. Tiltrú Frakka á sér sjálfum er í lágmarki. Atvinnuleysi meðal ungra Frakka er mjög hátt. Chirac mun víst eiga, eins og gárungarnir segja stundum, afskaplega góða fjarveru.

Eftir tólf ár af þessu moði, illa skilgreindum hugmyndum að umbótum sem hurfu nokkrum dögum eftir að verkalýðshreyfingarnar höfðu skipulagt nokkra útifundi og fáeinar kröfugöngur, var tilefni til að ætla að næsti forseti Frakklands hlyti að koma úr röðum sósíalista. Þeir litu svo á, að hægrimenn höfðu brugðist og umboð þeirra yrði ekki endurnýjað. En franskir kjósendur voru, að u.þ.b. 53% meirihluta til, ekki á sama máli.

Það gefur því tilefni til ákveðinnar bjartsýni fyrir hönd Frakklands, að þjóðin hafi kosið Nicholas Sarkozy sem forseta, fram yfir hundraðloforðasósíalistann Segolene Royal. Þessi sigur Sarkozy gefur nefnilega sterklega til kynna, að Frakkar séu loks tilbúnir í alvöru breytingar.

Sarkozy, öfugt við Chirac, fór ekki með hálfkveðnar vísur í sinni kosningabaráttu. Það vissu allir, sem gengu að kjörborðinu fyrr í þessum mánuði, nákvæmlega hvað þeir voru að kjósa með því að gefa Sarkozy atkvæði sitt. Hann ætlar að verðlauna, en ekki refsa, fólki fyrir að vinna meira – og ógilda núverandi ákvæði sem gera fólki erfitt fyrir að vinna meira en 35 stunda vinnuviku. Hann ætlar að taka á glæpaöldunni með því að taka harðar á smáglæpum og síbrotamönnum. Hann ætlar að auka sveigjanleika vinnumarkaðarins, sem hingað til hefur gert fyrirtækjum afar erfitt um vik að segja upp fólki – sem hefur haft þau áhrif helst, að fyrirtækin eru mjög treg til að ráða til sín fólk – sem skýrir að miklu leyti það mikla atvinnuleysi sem hrjáir ungt fólk í Frakklandi.

Það kann að koma einhverjum á óvart, að þegar Chirac lúffaði fyrir mótmælunum árið 2003, talaði innanríkisráðherra hans, títtnefndur Sarkozy, fyrir því að þessum umbótum yrði að frestað um sinn. Hann var á þessum tíma ósáttur við þá aðferð, að lagabreytingum átti að hraða í gegnum þingið án þess að gera nægilega góða grein fyrir þeim í þinginu, í fjölmiðlum og gagnvart verkalýðsfélögunum og öðrum hagsmunaaðilum. Hann sá til þess að forðast þessi mistök sjálfur, þegar hann stóð í kosningabaráttunni. Hvernig sem svo verkalýðsfélögin munu mótmæla, þá verður það ekki á þeim grundvelli að þeim hafi ekki verið ljóst að breytinga er að vænta.

En þau munu mótmæla. Og það harkalega.

Það sem gerir næsta árið áhugavert í evrópskum stjórnmálum er einmitt þetta: Hvort lúffar Sarkozy eins og forveri hans, eða hefur nægilega sterk bein til að þrauka og bíða uns breytingarnar ná bæði að lækka atvinnuleysið í landinu og auka hagvöxt?

Þetta er nú einu sinni Frakkland þar sem götumótmæli eru hálfgert þjóðarsport og verkalýðsfélögin þar hafa afar takmarkaðan áhuga á því að missa spón úr aski sínum. En öfugt við Chirac virðist Sarkozy hafa nægilega sterkan vilja og metnað til að hrinda áætlun sinni í framkvæmd – og hann hefur þar að auki til þess skýrt umboð kjósenda. Það eru áhugaverðir tímar framundan í Frakklandi.