U ndanfarnar vikur hefur mátt ganga að blaðagreinum Samfylkingarmanna nær vísum á miðopnu Morgunblaðsins. Nú á laugardaginn var þar svo birt afar löng grein Margrétar S. Björnsdóttur, sem var sögð vera „félagi í Samfylkingunni“, þar sem Samfylkingarmönnum var lögð línan næstu misserin, sem auðvitað er mjög brýnt. Margrét taldi að nú mætti ekki útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá hugsanlegri stjórnarmyndun með Samfylkingunni og hlýtur stærsti stjórnmálaflokkur landsins að hafa orðið feginn að heyra það. En það var ekki svo að ekki mætti margt að þessum flokki finna og voru „pólitískar stöðuveitingar“ í Seðlabankanum þar einna fremstar í flokki.
Vitanlega má lengi deila um mannaráðningar og hverjir henta til hvaða starfs. Sennilega hafa fáar skipanir seðlabankastjóra verið umdeildari en þegar Steingrímur Hermannsson fyrrverandi forsætisráðherra var skipaður seðlabankastjóri árið 1994. Það gerði þáverandi viðskiptaráðherra, Sighvatur Björgvinsson, síðar formaður Alþýðuflokksins . Fyrir því hafði hann eflaust fullgild rök, eins og þáverandi aðstoðarmaður hans, Margrét S. Björnsdóttir, getur vottað. Ekki löngu áður hafði annar viðskiptaráðherra úr Alþýðuflokknum fengið færi á að skipa seðlabankastjóra. Jón Sigurðsson, sem sjálfur varð síðar seðlabankastjóri, skipaði Birgi Ísleif Gunnarsson alþingismann til starfans.
S völ er báran sem leikur um tangann við Gróttu, eins og Nesbúar vita. Það er gaman að ganga út í Gróttu, þessa landtengdu eyju, ef svo mætti segja, við Seltjarnarnesið. En það yrðu tíðindi sem mark væri takandi á, ef hafið sækti svo í sig veðrið að hún færi á kaf. „Má með sanni segja að fólkið úti í Gróttu sé bókstaflega á flæðiskeri statt“ sagði í hádegisfréttum NFS í gær. Sennilega er það ókunnugleiki á staðháttum, fremur en flóðbylgja, sem veldur því að fréttamaðurinn telur sig sjá á eftir Gróttu í sæinn. Nema auðvitað gróðurhúsaáhrifin, sem enginn má efast um, séu þegar farin að bræða svo frá okkur jöklana að ekki einu sinni Gróttuviti standi upp úr öldurótinu þegar það gerist verst.
En ef að menn verða fyrir því óhappi að vera staddir í Gróttu þegar hún sekkur, þá er eins gott að eiga góð stívél. Þau eru komin.
Ekki er gott að segja hverjir eru líklegastir til að ganga í stívélum sem þessum. Þó má telja víst að hinn nýji karlmaður, sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær, sé flestum líklegri.
Einn af þeim sem yrði flottur í rósóttum stívelum er Hjalti Úrsus Árnason, aflraunamaður. Í Fréttablaðinu á laugardag var hann spurður um mestu vonbrigði sem hann hefði orðið fyrir. Það voru „samsuðan eftir sveitarstjórakosningarnar í Mosfellsbæ“.
Þegar menn liggja agndofa og stynja yfir meirihlutamyndun í Mosfellssveit, þá er kannski kominn tími til að endurskoða Úrsi-nafnið.