Mánudagur 7. ágúst 2006

219. tbl. 10. árg.

S

Hvenær verða réttlætið og virðingin næg til að menn ráði því sjálfir hvort þeir séu félagar í Virðingu og réttlæti?

ífellt færri hafa hagsmuni sífellt fleiri í hendi sér“ var yfirskrift viðtals Morgunblaðsins við einn af forkólfum verkalýðshreyfingarinnar, Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur, í síðustu viku. Hér var þó ekki verið að vísa til umfangs verkalýðshreyfingarinnar eins og einhverjir vongóðir unnendur félagafrelsis gætu hafa haldið. Nei, varaforseti ASÍ lætur þessa skoðun sína í ljós í tilefni af fréttum af háum launum nokkurra Íslendinga. Telur hann slík ofurlaun, eins og þau eru gjarnan nefnd, til marks um aukinn ójöfnuð í þjóðfélaginu. Og ekki er nóg með að eðli máls samkvæmt dragi sífellt í sundur með þeim sem þessi ofurlaun þiggja annars vegar og hins vegar þeirra sem eru á lægstu laununum, heldur valda þessi ofurlaun almennri óánægju í þjóðfélaginu að mati varaforsetans. Fólk verði einfaldlega ósátt við kjör sín við það eitt að heyra af háum tekjum náungans. Og eftir þessa greiningu sína fær varaforseti ASÍ þá tilfinningu sem yfirskrift viðtalsins vísar til.

Það er trúlega rétt hjá Ingibjörgu að til eru menn sem geta ekki fest svefn viti þeir að aðrir hafa það á einhvern hátt betra en þeir sjálfir. Slíkum mönnum er auðvitað vorkunn. En ættu slíkar hugsanir ekki alla jafna að verða þeim hvatning til þess að bæta eigin hag? Eða er það virkilega svo að slíkir menn sætti sig ekki við annað en að þeir sjálfir verði hæsti mögulegi samnefnari? Varla. Það er enda athyglivert að í viðtalinu nefnir varaforseti ASÍ, sem hefur jafnframt starfað um árabil að virðingu og réttlæti hjá VR, ekki að hvaða leyti hagur sinna umbjóðenda hefur skerst við ofurlaun fárra einstaklinga. Hún vílar hins vegar ekki fyrir sér að kalla eftir flóknu regluverki um svokallaða samfélagslega ábyrgð sem hún útskýrir ekki frekar hvað er. Og til þess að ekki verði um séríslenskt fyrirbæri að ræða segir hún óskandi að Evrópusambandið hafi forystu um málið. Slík ósk er væntanlega sprottin af tilfinningu hennar um valdatauma hinna fáu á fjöldanum. Skrifstofurnar í Brussel eru auðvitað vel til þess fallnar að deila út reglum um tilhlýðilega hegðun í heimsálfunni.

Eftir lestur áðurnefnds viðtals, og reyndar annarra viðtala sem fylgdu í kjölfarið í Morgunblaðinu við aðra verklýðsforingja, má greina gremju yfir ofurlaununum svonefndu. Það hefði mátt segja Vefþjóðviljanum, sem reyndar stendur utan við öll samtök launafólks og atvinnurekenda og tekur bara við frjálsum framlögum frá lesendum sínum, að fréttir af ofurlaunum gætu verið vatn á myllu þeirra sem semja um laun í landinu. En þá man Vefþjóðviljinn eftir því að launþegasamtökin hafa svo margt annað á sinni könnu en að semja um kaup og kjör. Má þar nefna rekstur sumarbústaða og hjólhýsa, námskeiðahald af ýmsu tagi, milligöngu í viðskiptum félagsmanna við líkamsræktarstöðvar, gleraugnasala og nuddara og ákvörðun um hvernig lífeyrissparnaði félagsmanna er háttað. Þá hafa stéttarfélögin í hendi sér ákvörðun um hvaða daga megi vinna og hvenær ekki, lengd vinnudagsins, og síðast en ekki síst hverjir það eru sem mega vinna tiltekin verk. Þessar ákvarðanir eru hvorki teknar á fjölmennum fundum þeirra sem málið varðar né hafa einstakir skjólstæðingar félaganna nokkuð um þær að segja til eða frá. Þvert á móti er þorri landsmanna seldur undir ákvarðanir stéttarfélaga og margir þeirra greiða nauðugir til þessara félaga mánaðarlegt gjald. Í ljósi sameiningar stéttarfélaga undanfarin ár, með tilheyrandi fjölgun þeirra sem undir verkalýðsforystuna heyra er því án efa fótur fyrir tilfinningu varaforseta ASÍ um að „sífellt færri hafi hagsmuni sífellt fleiri í hendi sér“.

Það var annars ánægjulegt að stéttarfélagið Virðing og réttlæti ákvað að falla frá ýmsum atburðum sem félagið hefur staðið fyrir á þessum frídegi verslunarmanna og nýta fjármunina í annað. Þeir sem veita félaginu forystu hafa nefnilega fengið það á tilfinninguna að félagsmennirnir vilji ráðstafa svokallaðri inneign sinni eins og þeir telja best, svona fremur en að verkalýðsforystan eyði þeim í skemmtanir. Virðing og réttlæti hefur hins vegar ekki enn getað réttlætt að félagsmenn fái um það val hvort að þeir nýta sér yfirhöfuð milligöngu félagsins með fjármuni sína. Svo mikil er virðingin enn ekki orðin.