T veir kunnir bandarískir fræðimenn, hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Gary Becker og alríkisdómarinn Richard Posner, halda saman úti vefsíðu, The Becker-Posner Blog, sem hlýtur að vera ein sú athyglisverðasta sinnar tegundar á lýðnetinu. Fyrir réttri viku skrifuðu þeir til að mynda forvitnilega pistla um nýja tilskipun í Chicago, sem ganga út á að lyfta lágmarkslaunum í þeim fyrirtækjum borgarinnar sem velta yfir einum milljarði dala á ári og eru yfir 90.000 fet2 að flatarmáli. Að sögn Beckers nær tilskipunin til um 40 verslana. Þó að yfirlýstur tilgangur reglnanna sé að lyfta lágmarkslaunum og þannig að hjálpa hinum verst settu verða afleiðingarnar þveröfugar, eins og Becker útskýrir.
„Reglurnar um lágmarks-launin eru sem sagt tvöföld ógæfa fyrir hina tekjulágu.“ |
Reglurnar munu að sögn Beckers hækka kostnað stórverslana á borð við Wal-Mart, Target og Home Depot í Chicago af að nota vinnuafl þeirra sem hafa litla sérhæfingu. Reglurnar auki líkurnar á að verslanir af þessu tagi verði opnaðar í nálægum bæjum og þær verslanir sem haldi áfram starfsemi í Chicago muni draga úr notkun á umræddu vinnuafli og ráða þess í stað meira af starfsmönnum með sérþekkingu eða auka vélvæðingu. Þá muni verslanir reyna að sleppa undan reglunum með því að hafa verslunarrýmið rétt undir viðmiðunarmörkunum.
Becker bendir á að þeir sem verði verst úti séu blökkumenn og menn frá rómönsku Ameríku, þar sem færri störf verði í boði í borginni fyrir fólk minni menntun og sérhæfingu. Þessu til viðbótar muni verð í borginni hækka á þeim vörum sem seldar eru á tiltölulega vægu verði í stórverslununum. Stóru verslanirnar sem eftir verði í borginni muni hækki verð vegna þess að kostnaður hækki og þar sem viðskiptavinirnir séu aðallega þeir sem ekki hafi háar tekjur muni þeir fara verr út úr reglunum en hinir tekjuháu. Reglurnar um lágmarkslaunin eru sem sagt tvöföld ógæfa fyrir hina tekjulágu.
En hver styður þá svona slæmar reglur sem skaða einmitt þá hópa sem þær eru sagðar eiga að hjálpa, spyr Becker? Hann segir auðvelt að skilja að hefðbundnir stórmarkaðir sem ekki falli undir reglurnar styðji þær og að ekki þurfi að koma á óvart að andstaða frá viðskiptavinum með lágar tekjur komi ekki fram, þar sem þeir séu ekki vel skipulagður hópur. Þá komi ekki heldur á óvart að verkalýðsfélög í Chicago styðji reglurnar því að verkalýðsfélög styðji jafnan reglur um hækkun lágmarkslauna, jafnvel þegar þær nái aðeins til takmarkaðs hóps. Hækkun lágmarkslauna auki eftirspurn eftir sérhæfðum félagsmönnum verkalýðsfélaganna, sem fái störf sem minna sérhæfðir starfsmenn missi. Þar að auki hafi verkalýðsfélögin ástæðu til að reyna að hækka kostnað hjá fyrirtækjum á borð við Wal-Mart sem ekki séu í sambandi við verkalýðsfélög og séu á móti þeim. Með því að þvinga hærri kostnað upp á fyrirtæki sem ekki starfi með verkalýðsfélögum dragi úr samkeppni þeirra við fyrirtækin sem séu í samstarfi við verkalýðsfélögin. Að auki sýni reglurnar að verkalýðsfélögin hafi pólitískt vægi, sem kunni að breyta afstöðu stóru fyrirtækjanna til þess að starfsmenn þeirra séu í verkalýðsfélögum.
Það er erfiðara að skilja ákafan stuðning við reglurnar frá fulltrúum blökkumanna í borgarstjórninni og öðrum leiðtogum þeirra, segir Becker, þó að sumir þessara manna hafi að vísu greitt atkvæði gegn reglunum. Eina skýringu á þessu telur hann vera þá, að þessir menn séu í pólitískum tengslum við verkalýðsfélögin og hugsanlega aðra hópa sem hagnist á reglunum.
Becker klykkir út með því að benda á að reglur á borð við þá sem hér um ræðir séu ekki aðeins hættulegar vegna beinna skaðlegra áhrifa, heldur einnig vegna þess að þær ýti undir frekari reglusetningu af sama tagi á minni fyrirtæki í framtíðinni. Þær geti líka valdið skaða með því að hvetja til afskipta af öðrum geirum markaðarins. Í því sambandi nefnir hann tillögu sem bíði afgreiðslu borgarstjórnar Chicago um að þeir sem skipuleggi hverfi í borginni verði í skipulaginu að gera ráð fyrir tilteknu hlutfalli af húsnæði á „viðunandi“ verði.
Posner segir í athugasemd sinni við pistil Beckers að hann hafi litlu við ýtarlega greiningu hans að bæta, sérstaklega þar sem hann megi ekki fjalla opinberlega um hvort reglurnar standist stjórnarskrána. Hann telur líklegt að deilur um þær endi í dómssalnum hjá honum, en þær mismuna verslunum eftir stærð eins og áður segir. Lýðnetið er yfirfullt – ef svo má að orði komast – af alls kyns fánýtum vangaveltum og hvers kyns slúðri og vanhugsuðu blaðri um mikilvæg og áhugaverð málefni. Hvort sem menn eru sammála eða ósammála þeim Becker og Posner er að minnsta kosti óhætt að fullyrða að hugleiðingar þeirra eru annars eðlis.