M innihlutinn í bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur nú krafist þess að meirihlutinn rökstyðji fyrir sér og öðrum hvers vegna ráðinn hafi verið til staðarins bæjarstjóri sem hafi minni menntun og stjórnunarreynslu en aðrir umsækjendur, eða að minnsta kosti hluti þeirra. Hinn nýi vinstrimeirihluti í Bolungarvík hefur hins vegar neitað og sagt að sér beri engin skylda til að rökstyðja ákvörðun sína fyrir minnihlutanum eða opinberlega fyrir bæjarbúum.
Þetta er stórfín afstaða hjá meirihlutanum. Þarna er einfaldlega um það að ræða að bæjarfulltrúar sem mynda meirihluta í bæjarstjórn hafa ákveðið að ráða tiltekinn mann, Grím Atlason, til þess að vera æðsti embættismaður bæjarins og framfylgja þeirri stefnu sem meirihlutinn hefur og mun hafa um rekstur bæjarins. Í slíkt starf ræður meirihlutinn einfaldlega þann mann sem hann treystir best og getur ekkert staðið í að „rökstyðja“ það fyrir minnihlutanum. Þó vera kunni að einhverjir aðrir umsækjendur hafi sótt einhver námskeið um opinbera stjórnsýslu eða hafi einhverja reynslu eða aðra menntun héðan og þaðan, þá er það aukaatriði. Meirihlutinn á einfaldlega að fá að ráða þann bæjarstjóra sem hann treystir best og ef það val hans reynist illa þá sýpur hann seyðið af því í næstu kosningum. Og þá myndi núverandi meirihluti varla telja sanngjarnt að hann þurfi að rökstyðja það í löngu máli hvers vegna fyrsta verk hans væri að skipta um bæjarstjóra.
Það er sérstaklega ánægjulegt við viðbrögð meirihlutans að hann kemur hreint fram í málinu og neitar einfaldlega að rökstyðja niðurstöðu sína. Margir hefðu eflaust farið þá leið að setja saman einhvern rökstuðning, nýi bæjarstjórinn hefði góðar hugmyndir, reynslu héðan eða þaðan og svo framvegis, en hér er það ekki gert. Ekkert af því hefði sennilega verið raunveruleg ástæða. Sennilega skiptir mestu að bæjarfulltrúunum hefur einfaldlega almennt litist best á þennan umsækjenda, haft tilfinningu fyrir að hann myndi standa sig vel, talið hann standa sér nálægt eða vera heppilegan af öðrum ástæðum. Ekkert af þessu ætti hins vegar heima í „rökstuðningi“ og þess vegna er langhreinlegast að neita einfaldlega að rökstyðja málið en segja bara: þetta er okkar val og á okkar ábyrgð, sjáum bara hvernig kauði stendur sig. Það er svo við okkur að sakast ef illa fer.
Raunar má segja þetta um mörg svið hins opinbera. Kenningar um það hver sé „hæfastur“ eru oft byggðar á smáatriðarökstuðningi eins og birtist í talningu námskeiða sem einhver umsækjandi hefur sótt eða því hversu marga mánaða reynslu hann hefur héðan og þaðan. Slík talning er væntanlega fjarri því að segja mikið um hæfileika umsækjandans. Rökstuðningur eins og þessi virðist heldur ekki til þess ætlaður að finna besta umsækjandann heldur til þess að koma þeim sem ræður eða veitir umsögn undan gagnrýni. Það er einfaldlega afar erfitt að meta hæfni manna, að minnsta kosti sé ekki þeim mun meiri munur á þeim. Slíkt mat hlýtur alltaf að verða öðrum þræði byggt á þeirri tilfinningu sem sá eða sú sem ræður í starfið hefur fyrir umsækjendum. Það er einfaldlega ekki hægt að raða umsækjendum eftir hæfni með neinum algildum hætti. Það að einn umsækjandi sé „hæfari“ en annar, verður aldrei annað og meira en persónulegt mat. Og þegar það er hópur bæjarfulltrúa sem velur, og kemst væntanlega að sinni niðurstöðu eftir opinská samtöl sín á milli um væntanlega kosti og galla þeirra sem til greina koma, þá blasir við að opinber rökstuðningur fyrir valinu verður hvorki fugl né fiskur.
Það blasir svo væntanlega við að hættan á því að menn taki vanhæfan mann fram yfir hæfan er meiri hjá ríki og sveitarfélögum en einkafyrirtækjum því hjá hinu opinbera eru það fyrst og fremst skattgreiðendur sem bera kostnaðinn en hjá einkafyrirtækjum eru það eigendur og stjórnendur sem sitja sjálfir uppi með kostnaðinn af ráðningu vanhæfs manns.