220. tbl. 10. árg.
Þ 
að er ekki aðeins í Reykjavík sem menn eyða annarra manna fé og sjá ekkert að því. Á Akureyri voru á dögunum glaðhlakkalegir stjórnmálamenn að skrifa undir verksamning um byggingu menningarhúss og að því búnu var „fyrsta skóflustungan tekin með stæl“ eins og sagði í jarðbundinni frásögn
Morgunblaðsins af málinu. Lesa mátti lengi til að finna eina setningu um kostnað við bygginguna en hann er nú sagður verða 2,1 milljarður króna og eru 450 milljónir þá vegna tónlistarskóla sem þarna verður byggður. Ekki var orð um það að nokkuð myndi kosta að reka húsið þegar það loks hefði verið byggt, enda ekki vani að nefna slíkt þegar hið opinbera styrkir húsbyggingar. En þegar þar að kemur verður þess auðvitað krafist að séð verði til þess að skattgreiðendur fjármagni líka alls kyns starfsemi í húsinu sem þeir nú eru látnir byggja. Verður þar sunginn sami söngur og er til dæmis reglulegur úr þjóðarbókhlöðunni, þar sem spurt er hvers vegna bókhlaða hafi verið byggð fyrir of fjár ef hún á svo að standa lokuð um kvöld og nætur.Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri sagði við þetta tækifæri að því fleiri sem nýttu sér menningarhúsið, því meiri yrði arðurinn af því. Þetta á ekki að skilja svo að bæjarstjórinn sé þarna að hugsa um aðgangseyri heldur er arðurinn sem hann hefur í huga „sá arður sem felst í auknum lífsgæðum íbúanna“. Þetta hljómar auðvitað óskaplega vel; tónlist og menning, aukin lífsgæði, arður er nú mældur í fleiru en krónum og aurum gott fólk.
Meginatriðið í þessu er hins vegar ósköp einfalt og því fá hjal og bros ekki breytt. Bæjarstjórinn á Akureyri innheimtir hátt útsvar af bæjarbúum og rýrir þar með möguleika þeirra til að ráðstafa tekjum sínum eins og þeir sjálfir kjósa. Vissulega nýtir bærinn tekjur sínar þannig að það kemur ýmsum bæjarbúum til góða, en það breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að útsvarstekjurnar eru nauðungargjöld sem tekin eru af bæjarbúum með illu ef þeir borga ekki í góðu. Þeir sem ráðstafa slíkum tekjum verða að hafa það í huga að þeir eru að eyða annarra manna peningum og að það eru peningar sem fólk hefði annars kannski notað í húsaleigu, mat, klæðnað, leikföng, tóbak og bækur – eða hvað það er sem hver og einn kýs. Þó stjórnmálamenn vilji auðvitað kaupa af sér þrýstihópana sem tala og tala fyrir sömu gæluverkefnunum, þá breytir það ekki því að útsvarsgreiðendur – og auðvitað skattgreiðendur almennt – eiga líka rétt á því að vera meðhöndlaðir af virðingu.
Það er ekki sérstaklega mikil virðing fólgin í því að taka peninga af fólki nauðugu með þeim rökstuðningi að stjórnmálamennirnir viti betur en fólk hvernig þessir peningar geti „aukið lífsgæði“ þess.