Helgarsprokið 17. apríl 2005

107. tbl. 9. árg.

Hvað segir Agnes Bragadóttir um örlög þeirra sem keyptu hlut í Járnblendifélaginu þegar ríkið seldi sinn hlut? Þeir sem keyptu töpuðu miklu. Var þá ríkið að stela af kaupendunum? Voru kaupendur að færa ríkinu gjafir? Staðreyndin er auðvitað sú að þótt í mörgum tilfellum hafi nýjum eigendum einkavæddra ríkisfyrirtækja tekist að bæta rekstur fyrirtækjanna og hagnast á sölu hlutabréfa á síðari stigum eru gagnstæð dæmi einnig til. Kaupendur Útvegsbankans, Lyfjaverslunar ríkisins, Síldarverksmiðja ríkisins og Landssmiðjunnar áttu til að mynda ekki alltaf því láni að fagna. Þótt þeim tækist að bæta reksturinn eftir að hann losnaði undan pólitískum afskiptum gekk hann upp og ofan af ýmsum ástæðum. Þeir gátu ekki gengið að því vísu að selja hlutabréf með hagnaði. Og svona fjárfestingar þarf alltaf að skoða í samhengi við aðra fjárfestingarkosti. Í mörgum tilfellum hefði verið betra fyrir menn að setja fé í önnur fyrirtæki, verðbréf eða bara undir koddann. Það er því ósanngjarnt af Agnesi að stilla málum þannig upp að einkavæðing sé alltaf „gjöf“ til velvildarmanna stjórnmálamanna, já færð þeim á silfurfatinu góða. Það hefði mátt ætla að ritstjóri viðskiptablaðs Morgunblaðsins vissi betur. En hann hefur nú auglýst opinberlega eftir aðstoð sérfræðinga í fjármálum til að leiðbeina sér við hlutabréfakaup í Landssímanum svo kannski fækkar ranghugmyndunum.

„Fyrst æsa menn sig óskaplega yfir því að almennum borgurum sé þannig gert ómögulegt að eignast Landssímann og því næst afsanna menn þá kenningu sína með því að efna til almenningshlutafélags um slík kaup.“

Um sjálft framtak Agnesar að stofna hlutafélag um tilboð í Landssímann er ekki margt að segja. Auðvitað er ekkert að því að menn taki sig saman um að bjóða í fyrirtæki sem er einkavætt. Fyrst ákveðið hefur verið að bjóða fyrirtækið til sölu, þá er auðvitað eins gott að einhverjir vilji kaupa. Fyrir þremur árum vildu engir kaupa stóran hlut í Landssímanum. Ef menn hefðu viljað „gefa“ Landssímann einhverjum vildarvinum hefði verið alveg gráupplagt að gera það þá. Það var ekki gert. Agnes hefur jafnframt gagnrýnt að við einkavæðingu séu reglur sniðnar að þörfum ákveðinna manna, meintra vina stjórnmálamanna. Þetta er að því er virðist ein meginástæða þess að Agnes reynir að fá hóp manna með sér í að kaupa Landssímann nú. En þrátt fyrir þessa gagnrýni Agnesar hefur hún sjálf nú óskað eftir því að einkavæðingarnefnd sveigi þegar settar reglur um sölu Landssímans að þörfum Agnesar.

Fyrir ekki mörgum vikum komst Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, í fréttir vegna málflutnings sem hann sagðist ætla að hafa í frammi á aðalfundi Landssímans, sem þá stóð fyrir dyrum. Steingrímur ætlaði ekki að mæta þar sem alþingismaður, norðanmaður eða oldboy í blaki, heldur sem hluthafi. Steingrímur J. Sigfússon er hluthafi í Landssímanum. Steingrímur J. Sigfússon var einn fárra Íslendinga sem er nógu harður kapítalisti til að hafa keypt hlutabréf í Landssímanum. Hann er því væntanlega einn fárra alþingismanna sem hefur beinlínis tekið þátt í viðskiptum með hlutabréf í Landssímanum. Þar sem fæstir eru jafn harðir kapítalistar og Steingrímur J. var þátttaka í hlutafjárútboðinu sem haldið var á sínum tíma hins vegar svo lítil að aðeins seldist brot af því sem landsmönnum var boðið að kaupa. Nú þegar reyna á að einkavæða fyrirtækið er farin sú leið að selja stóran hluta, en gera það að skilyrði að fyrirtækið fari á hlutabréfamarkað innan ákveðins tíma og þar gefist þeim sem vilja færi á að eignast hlut í því. Þá er hins vegar risið upp með stóryrðum. Fyrst æsa menn sig óskaplega yfir því að almennum borgurum sé þannig gert ómögulegt að eignast Landssímann og því næst afsanna menn þá kenningu sína með því að efna til almenningshlutafélags um slík kaup. Auðvitað geta allir boðið í Símann. Það er hins vegar engin ósanngirni í því fólgin að kaup verði einkum á færi þeirra sem geta greitt kaupverð. Það er engin ósanngirni í því að selja einn stóran hlut fremur en þúsundir lítilla. Þetta eru einfaldlega ólíkar aðferðir við sölu og hvorug kallar á stóryrði eins og notuð hafa verið í kynningarskyni undanfarið. Ef stór hlutur er seldur, þá mynda þessir mörgu einstaklingar, sem vildu kaupa lítinn hlut, bara félag um tilboð ef þeir vilja. Þetta er ósköp einfalt, og ekkert nema gott um það að segja ef fólk myndar slíkt félag, býður hæst og kaupir hið einkavædda fyrirtæki.

Einkavæðing bankanna hefur einnig komið til tals, og í sumum tilfellum með svipuðum stóryrðum. Hvernig er það, voru það ekki tugþúsundir sem keyptu í bönkunum? Voru hluthafar í Búnaðarbankanum ekki um 90 þúsund þegar mest var? Stóð fólk ekki í biðröðum við að skrá sig fyrir hlut sem það samdægurs framseldi með hagnaði til einhvers fjármálafyrirtækis sem var að reyna að eignast hlut í bönkunum? Og þær þúsundir manna sem ekki seldu sinn hlut, hafa þær ekki hagnast verulega á þeirri gengishækkun sem orðið hefur á bönkunum eftir að þeir komust í einkaeigu og urðu reknir eins og einkafyrirtæki en ekki ríkisstofnun? Síðar var svo stærri fjárfestum selt á hærra gengi en almenningi. Það má finna eitthvað að öllum þeim aðferðum sem hægt er að nota við einkavæðingu, eins og það má finna að svo mörgu sem gert er, ekki síst þegar stjórnmálamenn koma að verki. En aðalatriðið er að einkavæða, koma fyrirtækjunum undan pólitískri stjórn, til þeirra sem vilja reka þau í hagnaðarskyni.