Mánudagur 18. apríl 2005

108. tbl. 9. árg.

Íársskýrslu Jafnréttisstofu ríkisins fyrir árið 2002 kemur fram að stofan hafi gert sérstakan samning við femínistatímaritið Veru um auglýsingar og umráð stofunnar yfir opnu í hverju tölublaði. „Gerður var samningur við tímaritið Veru um að Jafnréttisstofa hefði til umráða opnu í hverju blaði auk auglýsingar“, segir í ársskýrslunni. Í ársskýrslu fyrir árið 2003 er sagt frá því að stofan hafi áfram haft þessa opnu í hverju blaði til umráða auk auglýsinga. Virðist þetta vera eina tímaritið sem stofan hefur sérstakan samning við um birtingu efnis og auglýsinga.

Nú er það sérstakt álitaefni hvort rétt sé að ríkisstofnanir styðji sérstaklega útgáfu tímaritsins Veru. Líklega geta lesendur Vefþjóðviljans sér rétt til um skoðun hans á slíkum styrkjum og vart þörf að ræða það frekar. Það er hins vegar einnig umhugsunarefni hvort Jafnréttisstofa sé að beina auglýsingum sínum til þeirra sem þurfa á þeim að halda. Ef við gefum okkur þá fjarstæðukenndu forsendu að auglýsingar Jafnréttisstofu eigi raunverulega erindi við einhverja, hverjir myndu það vera? Áskrifendur tímaritsins Veru? Varla. Með fullri virðingu fyrir fjölmenningarlegri samsetningu áskrifendahóps Veru þá trúa þeir sem kaupa Veru líklega hvort eð er flestir því þegar sem kemur fram í þessum auglýsingum og öðrum áróðri frá Jafnréttisstofu. Að Jafnréttisstofa ríkisins auglýsi í Veru er svona álíka gáfulegt markaðsstarf og að senda kristilega trúboða heim til sóknarnefndarmanna í kristnum kirkjum landsins. En auðvitað eru þessar auglýsingar og samningur um umráð yfir opnu í blaðinu ekkert annað en ríkisstyrkur sem reynt er að klæða í faglega feluliti.

Og úr því Vera er hér til umræðu getur Vefþjóðviljinn ekki látið það vera að víkja að efni nýjasta tölublaðsins. Það er nefnilega óhætt að segja að þær séu stórmannlegar hjá tímaritinu Veru og greinilega fúsar til að leyfa öllum að njóta sannmælis, eða hitt þó heldur. Í hverju hefti tímaritsins er á leiðarasíðu deilt út plúsum og mínusum til einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana, sem Veru þykir hafa staðið sig vel eða illa í jafnréttismálum. Í nýjasta heftinu er efsti plús á blaði veittur til Flugleiða og Útlendingastofnunar „fyrir að ráða konur í forstjórastóla“. Þessi framsetning segir meira en mörg orð um málflutning og vinnubrögð margra þeirra sem framarlega eru í baráttu femínista á Íslandi. Auðvitað var það ekki Útlendingastofnun sem ákvað að ráða unga konu sem forstjóra stofnunarinnar. Þá ákvörðun, sem Vera  segir að sé „skref í jafnréttisbaráttunni“, tók ráðherrann sem fer með útlendingamál, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. En það má greinilega ekki segja það að Björn Bjarnason stigi „skref í jafnréttisbaráttunni“ þegar hann ræður rúmlega þrítuga konu til að stýra einni af stofnunum ríkisins. Það má ekki gerast að Björn Bjarnason fái plús í jafnréttismálum, það má ekki gerast að menn fari að efast um þá mynd sem búið er að draga upp af Birni sem sérstökum dragbít í jafnréttisbaráttunni sem Vera telur sig vera að heyja. Þess vegna má ekki segja lesendum Veru hver það var sem réði ungu konuna sem forstjóra og þess vegna er það „Útlendingastofnun“ en ekki Björn Bjarnason sem fær plús fyrir ákvörðun sem Björn Bjarnason tók en ekki Útlendingastofnun.