S purður að því hvers vegna nýjar höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur séu jafn dýrar og raun ber vitni svarar Alfreð Þorsteinsson stjórnarformaður Orkuveitunnar og yfir-borgarstjóri Reykjavíkur því til, að fermetraverðið sé alls ekkert hátt. Það sé svipað og í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Þetta telur Alfreð að slái vopnin úr höndum gagnrýnenda og raunar er það svo að enginn þeirra sem heyrt hefur þessa furðulegu röksemd hefur spurt þeirrar spurningar sem blasir við: Er þetta ekki bara til marks um að grunnskólar í borginni séu allt of dýrir líka? Og það skyldi svo sem engan undra þegar horft er til skuldasöfnunar og skattahækkana R-listans þó að hús Orkuveitunnar sé ekki eina húsið sem listinn lætur byggja allt of háu verði.
Alfreð og R-listinn ættu frekar að taka annan samanburð en eigin grunnskóla til að meta hvort að höfuðstöðvar Orkuveitunnar eru allt of dýrar eða ekki. Samanburðurinn sem Viðskiptablaðið tók er til að mynda ágætur, en þar eru höfuðstöðvar Orkuveitunnar bornar saman við nýbyggðar höfuðstöðvar Alcan í Straumsvík. Fermetrinn hjá Alcan kostaði 172.500 krónur en fermetrinn hjá Alfreð kostaði 225.000 krónur, eða ríflega 30% meira en hjá Alcan. Ekki er enn vitað hve mikið höfuðstöðvar Orkuveitunnar koma til með að kosta, því að smíðinni er ekki að fullu lokið. Þó hefur Alfreð gefið upp að kostnaður sé rúmir 4,2 milljarðar króna og að kostnaður hafi farið tæpan þriðjung fram úr áætlun. Þetta er þó mikið vanmat á framúrkeyrslunni, því að upphaflegar áætlanir hljóðuðu upp á mun ódýrari byggingu. Nær lagi er að halda því fram að kostnaður sé meira en tvöfaldur sá sem lagt var upp með, en þá var ætlunin að fyrri húseignir Orkuveitunnar stæðu undir kostnaði við bygginguna. Þessar húseignir voru seldar fyrir 1,8 milljarða króna.
Helsti vandinn við Orkuveituna og Alfreð Þorsteinsson er að Alfreð rekur Orkuveituna eins og hann eigi hana einn, en lætur alla aðra borga brúsann. Þetta skýrir til dæmis þá miklu framúrkeyrslu sem orðið hefur við byggingu höfuðstöðvanna, en til marks um að slík framúrkeyrsla er ekki náttúrulögmál má aftur taka dæmi af höfuðstöðvum Alcan, sem stóðust áætlun. Að vísu þurfti að grípa í taumana þegar verið var að byggja þær höfuðstöðvar og minnka þær frá upphaflegri áætlun til að þær færu ekki yfir áætlaðan kostnað, en þá var það líka gert. Alfreð sér hins vegar enga ástæðu til að endurskoða stærð eða íburð í höfuðstöðvum Orkuveitunnar þó að byggingarkostnaður rjúki upp úr öllu valdi. Þess vegna segir fermetraverðið litla sögu og full ástæða er til að ætla að Orkuveitan hefði getað komist af með færri fermetra. Alfreð þarf heldur ekki að hafa áhyggjur af að tekjur standi ekki undir útgjöldum, því að hann ræður tekjunum sjálfur. Orkureikningur borgarbúa er einfaldlega hækkaður eftir því sem þurfa þykir og þá er gefin einhver nýstárleg skýring eins og sú að svo heitt hafi verið í verði að nauðsynlegt hafi reynst að hækka verðið á heita vatninu. Slíkan rökstuðning býður yfir-borgarstjórinn borgarbúum upp á með reglulegu millibili. Nýjasta hækkun Alfreðs og R-listans var hækkun raforkuverðs um 3,9% og vitaskuld án sýnilegrar ástæðu. Svo má hver velja fyrir sig hvort hann trúir því að þessi hækkun stafi af því að í fyrra hafi verið óvenjulega bjart, eða að Orkuveitan þurfi á meira fé að halda vegna milljarðaausturs í höfuðstöðvar, fjarskiptaævintýri og risarækjueldi.