Föstudagur 7. janúar 2005

7. tbl. 9. árg.

Samkvæmt fréttum The Wall Street Journal í gær tóku tvö ríki til viðbótar upp flatan tekjuskatt um áramótin. Með flötum skatti er átt við að allir launþegar, og jafnvel fyrirtæki einnig, greiði sama hlutfall tekna sinna í skatt en ekki eins og tíðkast til dæmis á Íslandi þar sem menn greiða nú frá 0 og upp í tæp 40%. Flatur skattur breytir því ekki að þeir tekjuhæstu greiða áfram flestu krónurnar í skatt en með því að sleppa skattaafsláttum og þrepaskiptingu er hægt að hafa almenna skatthlutfallið lægra en ella. Rúmenar tóku upp 16% tekjuskatt fyrir fyrirtæki og einstaklinga en höfðu áður 25% tekjuskatt á fyrirtæki og fimm þrepa tekjuskatt einstaklinga frá 18 til 40%. Georgía tók upp flatan 12% skatta sem Journal telur enga tilviljun því Rússland hafi 13% flatan skatt og Georgía vilji standa betur að vígi í samkeppni um fólk og fyrirtæki.

Þau lönd meginlandsins sem státa nú af flötum skatti eru Eistland sem reið á vaðið með 25% skatti sem lækka á niður í 20% árið 2007, Lettland með 25%, Serbía með 14%, Úrkaína með 13% og Slóvakía með 19%. Stærstu stjórnarandstöðuflokkar Póllands og Tékklands vilja einnig taka upp flatan skatt. Um þessar þróun segir Journal:

Ríki sem vilja vera samkeppnishæf gætu gert margt vitlausara en að fylgja fordæmi Rúmena og Georgíumanna. Með því að hreinsa burt hvers kyns undanþágur og ívilnanir í skattkerfinu þyrfti heill her lögfræðinga og ráðgjafa að finna sér eitthvað annað að gera. Það væri til hagsbóta að losna við alla þá atvinnubótavinnu um leið og kerfið yrði sanngjarnara og hagstæðara fyrir flesta þá sem greiða skatt.

Þessi þróun í átt að flötum skatti í fyrrum kommúnistaríkjum sýnir hve mikilvægt það er að ríki hafa aðhald hvert af öðru. Það versta við Evrópusambandið og þess vegna samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er að með öllum „sameiginlegu“ lögunum, reglunum, tilskipununum, nefndunum, ráðunum og stöðlunum minnkar oft samkeppni milli ríkjanna og þar með aðhaldið sem ríkisstjórnir landanna hafa hver af annarri.

Hið sama má heimfæra á sameiningu sveitarfélaga á Íslandi. Það er afar mikilvægt að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi samanburð á milli sveitarfélaga, til dæmis Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar. Í Reykjavík var verið að hækka fasteignagjöld þótt gjaldstofninn hafi stækkað verulega vegna hækkunar á fasteignamati. Á Seltjarnarnesi stendur á sama tíma til að að lækka fasteignagjöldin til að vega á móti hækkun fasteignaverðs. Reykjavíkurborg innheimtir hámarksútsvar af íbúum sínum á meðan það er mun lægra á Seltjarnarnesi þótt gera mætti ráð fyrir því að Reykjavík ætti að geta haft lægri skatta vegna stærðar sinnar.