M eginmarkmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof væri stefnt í tvísýnu ef þak á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrði lægra en 480.000 krónur á mánuði, ef marka má greinargerð með frumvarpi félagsmálaráðherra um breytingar á lögunum. Lögin ná með öðrum orðum ekki markmiði sínu nema allir launþegar aðrir en þeir sem hafa yfir 600.000 krónur í laun á mánuði fái fullar félagslegar bætur fyrir að eignast börn. Jafnvel þeir sem hafa laun vel yfir meðallaunum, til að mynda 400 til 500 þúsund krónur á mánuði, verða að fá óskerta félagslega aðstoð til að markmið laganna náist. Hvað skyldi það nú segja um lögin og markmið þeirra?
Annað sem ekki vekur síður athygli við frumvarpið, en hefur af einhverjum ástæðum ekki fengið sömu umfjöllun og þakið sem sáralítil áhrif hefur á útgjöld úr sjóðnum, er sú staðreynd að skattar verða hækkaðir um 1.150 milljónir króna á ári til að standa straum af þeim viðbótarkostnaði sem lögin valda. Rétt er að endurtaka þetta: Skattar verða hækkaðir um 1,15 milljarða króna til að standa undir þessum lögum sem þegar hafa kostað umtalsverða skattahækkun. Eins og áður er skattahækkunin nú falin með hundakúnstum. Annars vegar með tilfærslu á framlagi úr Atvinnuleysistryggingasjóði og hins vegar með því að færa stofnun sem fengið hefur eyrnamerkt framlag af tryggingagjaldi beint undir ríkissjóð. Hreinlegra hefði vitaskuld verið að hækka tryggingagjaldið einfaldlega um 1.150 milljónir króna, en þá hefðu allir séð að verið væri að hækka skatta. Með þessari tilfærslu, jafn augljós og hún annars er, virðist jafnvel hafa tekist að villa um fyrir hinum snjöllu rannsóknarblaðamönnum landsins.
Enn eitt sem athygli vekur er að félagsmálaráðherra sagði í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að hin bágborna staða sjóðsins, sem stafar af gífurlegum greiðslum úr honum, hafi ekki verið fyrirsjáanleg, en útgjöld sjóðsins námu í fyrra 5,6 milljörðum króna. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerði að vísu ráð fyrir að kostnaðaraukinn vegna laganna yrði „aðeins“ um 1,5 milljarðar króna og að heildarkostnaður eftir lagabreytingu yrði um 3,6 milljarðar króna. Þessi áætlun var sama marki brennd og aðrar þær áætlanir þrýstihópa sem vilja koma málum sínum í gegnum þingið og kjósa að fela kostnaðinn til að fá lög samþykkt. Í þessu tilviki var þrýstihópurinn innan stjórnkerfisins, meðal annars í fjármálaráðuneytinu, svo að ekki var við miklu að búast af áætlunum þaðan. Aðrir bentu strax á að kostnaðurinn yrði mun meiri. Frumvarpinu var hins vegar hraðað í gegnum þingið – meira að segja án þess að óska umsagna eins og venja er – væntanlega í trausti þess að gallar þess kæmu ekki í ljós fyrr en það væri orðið um seinan.
Í stað þess að hækka skatta, þvert á gefin loforð, til að standa undir meingölluðum lögum væri nær að endurskoða lögin frá grunni og gera á þeim þær breytingar sem duga til að ná niður kostnaði og koma í veg fyrir skattahækkun.