Þriðjudagur 30. mars 2004

90. tbl. 8. árg.

Á

Öllum þætti eðlilegt að greiða aðgangseyri að þessari bangsafjölskyldu  ef hún væri flutt úr Yellowstone í dýragarð.

rið 1996 hófu umsjónarmenn þjóðskóga, þjóðgarða og fleiri jarða hins opinbera í Bandaríkjunum tilraun með að innheimta aðgangseyri af gestum. Frá upphafi hefur þetta verið gagnrýnt á þeirri forsendu að fátækt fólk sé þar með útilokað frá því að njóta náttúrunnar. Það hljómar auðvitað undarlega að $20 aðgangseyrir fyrir hvern bílfarm af fólki að til dæmis Yellowstone sé raunveruleg hindrun þegar kostnaður við að koma sér á staðinn, gista, eta og drekka hleypur á þúsundum dala fyrir flestar fjölskyldur í Bandaríkjunum.

Það mun vera staðreynd að fólk með lágar tekjur nýtir garða á borð við þessa minna en betur efnað fólk jafnvel þótt enginn aðgangseyrir sé að görðunum. Þetta á raunar við um alla útivist, bæði útilegur í þjóðgörðum og annað sport utandyra. Sumar kannanir benda einnig til að efnalítið fólk myndi enn síður nýta garðana ef aðgangseyrir væri innheimtur. Þetta segir þó ekki alla söguna því þar sem gjöld hafa verið lögð á, eins og í New Hampshire og Vermont, segjast 60% tekjulágra ekki hafa látið það hafa áhrif á sig. Engu að síður er líklegt að einhverjir efnalitlir láti það hafa einhver áhrif á sig að aðgangseyrir er innheimtur. En er rétt að fella aðgangseyrinn niður fyrir alla þess vegna?

Úr því útivist er meira iðkuð af vel stæðu fólki en fátæku hlýtur það að orka tvímælis að efnalitlir greiði skatta til að niðurgreiða sportið fyrir efnafólkið. Almenn niðurgreiðsla er því ekki rétta leiðin ef menn vilja auðvelda efnalitlu fólki að njóta þjóðgarða. Með slíkri niðurgreiðslu er einnig verið að ákveða fyrir bæði ríka og fátæka hvers kyns sport þeir vilja stunda. Niðurgreiðsla á þjónustu leiðir einnig til ofnotkunar á henni og þeir sem vilja að náttúran sé varin með öllum tiltækum ráðum gegn ágangi mannsins hljóta að fagna því að þeir sem nota náttúruna beri allan kostnað af því.

Í Yellowstone er eins og áður sagði innheimt $20 gjald af hverjum bíl sem fer í tvo daga um garðinn. Það er áætlað að gjaldið þyrfti að vera $80 til að mæta öllum rekstrarkostnaði garðsins. Það er aðeins brot af því sem kostar að sækja garðinn heim frá fjarlægum hlutum Bandaríkjanna.