Þ að er eins og sumir haldi að hið opinbera skapi verðmæti – eða kannski öllu heldur, það er eins og sumir haldi að það fé sem hið opinbera eyðir, það sé ekki tekið frá neinum nema kannski vindinum. Að minnsta kosti reynist mönnum misauðvelt að ímynda sér að starfsemi, sem í dag er rekin fyrir opinbert fé, megi á morgun reka án þess. Það er eins og sumir geri ekkert með þá staðreynd, að ef hið opinbera lækkar framlög sín til þessa eða hins svo og svo mikið, þá þarf það að taka sem því nemur minna fé af skattgreiðendum. Það fé sem hið opinbera veitir til eins málefnis, hefur það áður tekið frá skattgreiðendum sem hafa þar með jafn miklu minna fé til að verja til þess málefnis sem þeir hefðu hug á. Munurinn á þessum tvennum málefnum er hins vegar sá að einungis annað þeirra sést. Verkefnið sem hið opinbera borgar; brú, leikhús, tónleikasalur, skautahöll, jarðgöng, fæðingarorlofssjóður og svo framvegis, það blasir við öllum, á sína notendur, sína stuðningsmenn, fólk sem er stolt af því sem þar fer fram. Hitt málefnið, það sem skattgreiðendur hefðu notað peningana sína í, það sér það aldrei neinn því það fær ekki að verða til.
Og af því að sumt fólk sér aðeins aðra hliðina á þessu máli, þá verða þeir jafnan fyrir aðkasti sem hvetja til þess að hið opinbera hætti að leggja fé til einhverrar starfsemi. Sumir sjá aðeins fyrir sér minnkuð opinber framlög en ekki það að borgararnir hefðu meira fé milli handanna og gætu veitt sér meira, hver eftir sínum aðstæðum, smekk og löngunum; keypt fleiri bækur, sótt fleiri tónleika, greitt hærri aðgangseyri að leiksýningum, ferðast oftar, unnið styttri vinnudag, farið oftar á völlinn, leitað sér frekari menntunar, gert betur við sig í mat og drykk og svo framvegis. Eins og Vefþjóðviljinn hefur nokkrum sinnum nefnt þá sitja þeir sem vilja minnka opinber útgjöld iðulega undir ásökunum um að vera sérstakir fjandmenn þess sem þeir vilja ekki að hið opinbera styðji. Eru slíkar ásakanir meira að segja ósjaldan settar fram með orðbragði sem menn hefðu hugsanlega mátt spara sér til þeirra strjálu stunda þegar þeir eru ekki að saka aðra um skort á menningarlegri víðsýni, en það er bara eins og það er. Rétt eins og sú heldur skemmtilega staðreynd, að þeir sem ekki vilja greiða fullt verð sjálfir fyrir sín áhugamál heldur krefjast þess að skattgreiðendur hlaupi undir bagga – það eru iðulega þeir sem kalla hina nirfla og aurapúka. Muna menn eftir því þegar Íslenska óperan hætti í fyrra sýningum á Macbeth, þar sem hún tapaði milljón krónum á hverri sýningu? Það var reyndar uppselt á allar sýningar en engu að síður kom ekki til greina að hækka miðaverðið um þær tvöþúsund krónur sem þurft hefði. Það kom ekki til álita að láta á það reyna hvort óperuáhugamenn væru reiðubúnir að greiða sannvirði fyrir miðann, en óperumenn sáu hins vegar fátt að því að snúa sér til skattgreiðenda. Og þeir sem taka upp hanskann fyrir skattgreiðendur, þeir eru nirflarnir en ekki hinir sem ekki tíma að borga sig inn.
Það er fjarri Vefþjóðviljanum að vera andvígur knattspyrnuleikjum, myndlistarsýningum, þungarokkstónleikum, fegurðarsamkeppni, fallhlífarstökki eða annarri þeirri hegðun mannfólksins sem ekki brýtur á neinum öðrum. Blaðið er bara lítið hrifið af nauðungarframlögum til slíkra málefna og telur ekki sérstaklega hrósvert að menn sýni umhyggju sína og áhuga einkum með heimtufrekju í garð annarra. Blaðið telur einfaldlega mun geðfelldara að borgarinn ráðstafi sínu eigin fé, en að einhverjir aðrir taki það af honum með valdi og veiti því þangað sem þeim sjálfum hentar. Hver og einn getur svo haft um þá skoðun blaðsins þau orð sem skapsmunir hans og málstaður leggja honum til hverju sinni.