Fimmtudagur 1. apríl 2004

92. tbl. 8. árg.

G unnar Örlygsson þingmaður Frjálslynda flokksins kvaddi sér hljóðs á Alþingi í gær og kvartaði sáran yfir því að skammt væri nú til þingloka og veturinn hefði illa nýst til að ræða tillögur og afgreiða mál. Já, það er eiginlega furðulegt hversu þingveturinn getur orðið ódrjúgur ef menn hefja leikinn á því að sitja nokkra mánuði í fangelsi. Og þó; er það ekki að minnsta kosti álitamál hversu vel fer á því að Gunnar Örlygsson kvarti yfir því að minna hafi orðið úr vetrinum en æskilegt hefði verið; menn sem mánuðum saman gátu ekki sinnt löggjafarstarfi þar sem þeir sátu bak við lás og slá, eiga þeir eitthvað að vera að gera sér rellu yfir starfsáætlun Alþingis? Ekki þar fyrir, nokkrir félagar Gunnars, menn sem hafa í vetur meira eða minna gengið lausir, tóku undir með honum og þótti þeim afleitt að enn væru fjölmörg mál óafgreidd og væru það einkum fyrirframvonlaus frumvörp stjórnarandstöðunnar sem lítið hefði verið gert með. Fylgdi þessu vitaskuld hefðbundnar kvartanir yfir litlu skipulagi, löngu fríi og óvönduðum vinnubrögðum, svo öll var þessi umræða með hefðbundnum hætti.

En af hverju á alltaf að vera að afgreiða ný og ný lagafrumvörp? Þarf hundruð frumvarpa á hverju ári? Það mætti skilja slíkt flóð ef gersamlega yrði skipt um meirihluta á Alþingi, ef á þing settist hópur manna með gersamlega ólík sjónarmið en þeir sem þar hafa ráðið gangi mála undanfarin ár, en nú er það ekki svo þó auðvitað verði breytingar í hverjum kosningum. Af hverju er alltaf verið að setja ný og ný lög? Það er nú ekki eins og það sé alltaf meira vit í þeim nýju en þeim sem fyrir eru. Hvernig væri nú að þingmenn – og fjölmiðlamenn og aðrir þeir sem sífellt eru að etja þingmönnum fram – færu að velta fyrir sér hvort vandamál hversdagsins séu endilega þess eðlis að þau verði helst leyst með nýrri löggjöf.

En vilji menn nú vera að breyta lögum, eins og af og til þarf svo sem að gera, þá hlýtur að mega finna tíma til þess. Þingmenn hafa nægan tíma til lagasetningar; þeir eyða honum bara í annað. Látlausar „fyrirspurnir“, að ekki sé talað um „utandagsskrárumræðu“ um öll þau mál sem geta skilað „málshefjanda“ í sjónvarpið, taka ótrúlegan tíma frá þingmönnum. Þingmenn spyrja og spyrja og ráðherrar mæta síðan og lesa upp langlokusvar sem einhver undirkontóristi á stofnun hefur tekið saman – og að því búnu mætir fyrirspyrjandinn aftur í ræðustólinn og segir svarið sýna að pottur sé brotinn, margt ógert og ráðherrann hafi greinilega enga stefnu, og það sé afleitt, og enga framtíðarsýn, og það sé enn verra. Allir stjórnarandstöðuþingmenn úr sama kjördæmi og fyrirspyrjandinn þurfa líka að taka til máls – ef vera skyldi að sveitarstjórnarmenn úr kjördæminu væru að horfa á útsendinguna – og „þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli“ og svo endurtekur hver eitt atriði úr máli fyrirspyrjandans. Umræðunni lýkur á því að ráðherrann kemur aftur, þakkar fyrirspurnina og áhugann, hunsar þvínæst allt sem hefur verið sagt, ítrekar sitt fyrra svar og bætir við að allir virðist sammála um þetta mikilvæga mál sem sé mjög mikilvægt. Meira kemur ekki fram og í þetta fer hálftími.

Utandagskrárumræðurnar eru svipaðar en það ræðst að vísu nokkuð af því hvort það er ádíens á pöllunum. Ef pallarnir eru fullir þá eru allir stjórnarandstöðuþingmennirnir þrútnir af reiði. Annars bara Ögmundur. Utandagskrárumræður hafa það umfram fyrirspurnir að þær komast alltaf í fréttir, því íslenskir fréttamenn halda að allt sem er rætt „utan dagskrár“ hljóti að vera mikilvægt; að minnsta kosti mikilvægara en það sem var ekki brýnna en svo að það var tími til að setja það á dagskrá. Þrátt fyrir það þá eiga utandagskrárumræður það sammerkt að þær skila aldrei áþreifanlegum árangri; leysa engin mál, upplýsa ekkert. Enda er þeim ekki ætlað annað en að æsa fólk upp eða sýna að þessi eða hinn stjórnarandstöðuþingmaðurinn sé að missa þolinmæðina yfir ástandinu – einhvers staðar. Ráðherra mætir síðan en getur sjaldnast mikið sagt því yfirleitt er krafist utandagskrárumræðu á mjög krítísku augnabliki samningaviðræðna eða þegar einhver „sérfræðingur“ eða jafnvel „fagaðili“ var að setja fram hrakspá sem enginn hefur haft tóm til að lesa. Og þegar umræðan mun skila þingmanni í sjónvarpið, ráðherra mun standa eins og þvara og góður möguleiki er á því að meinatæknafélagið eða einhverjir mæti á pallana og Sigurður A. Magnússon standi fyrir utan þinghúsið með spjald á lofti, kefli í munninum og útataður í sinnepi, þá er ekki furða þó almennum þingmönnum þyki þetta gagnlegra en þetta endalausa löggjafarstarf sem engu skilar nema nýjum og nýjum lögum sem yfirlætisleg vefrit úti í bæ eru alltaf að vanþakka.