J
Fari störfum að fjölga í kjölfar mikils hagvaxtar er ólíklegt að efnahagsmál verði forsetanum sami fjötur um fót og föður hans þegar hann sóttist eftir endurkjöri 1992. |
ames J. Cramer umsjónarmaður þáttarins Kudlow & Cramer á CNBC kaus Al Gore í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum. Ekki nóg með það. Hann er Demókrati og hefur safnað mörg hundruð þúsund dölum í kosningasjóði Demókrata síðustu tuttugu árin.
Cramer þessi ritaði grein í The Wall Street Journal í gær þar sem hann segir að þrátt fyrir að hann sé Demókrati sé hann einnig fjármálaráðgjafi sem reyni að horfa hlutlægt á málin. „Þegar litið er til þess að hlutabéfaverð hefur ekki verið hærra í tvö ár og vextir gæla við sögulegt lágmark er getur maður ekki komist að sömu niðurstöðu og gagnrýnendur Bush. Árangurinn af efnahagsstefnu forsetans hefur verið frábær“, segir Cramer í grein sinni.
Það er ef til vill ekki að undra að Cramer komist að þessari niðurstöðu því fæstir veðjuðu á að bandarískt efnahagslíf ætti bjarta daga framundan fyrir rúmum tveimur árum þegar hlutabréfabréfabólan var sprungin og Tvíburaturnarnir riðuðu til falls undan árásum hryðjuverkamanna.
Andstæðingar Bush töldu lækkanir hans á tekjusköttum og sköttum á fjárfestingar væru feigðarflan vegna mikils fjárlagahalla. Hallinn myndi grafa undan bandarísku efnahagslífi. Skattalækkanir hans voru harðlega gagnrýndar fyrir að ná til allra landsmanna en ekki bara til þeirra efnaminnstu. Nú mælist hagvöxtur í Bandaríkjunum hins vegar um 8% til skamms tíma og 4% til lengri tíma. Störfum hefur hins vegar ekki fjögað að ráði en Cramer segir að fleiri störf fylgi venjulega í kjölfar efnahagsuppsveiflu og gera megi ráð fyrir að þau fari að skila sér snemma á þessu ári.
Cramer lýkur grein sinni á þessum ráðleggingum til andstæðinga forsetans: „Haldið endilega áfram að gera hróp að þessari stefnu. Heimtið bara hærri skatta og ábyrgð í ríkisfjármálum. Við sem daglega fylgjumst hins vegar með því sem er að gerast á mörkuðunum þurfum ekki frekari vitna við: Árangurinn af efnahagsstefnu Bush er meiri en nokkur þorði að vona. Eða svo gripið sé til orða sem flokksbræður mínir kunna að skilja: This time it’s not the economy, stupid.“