Fimmtudagur 15. janúar 2004

15. tbl. 8. árg.

U

Hafa Samfylkingarmenn snúist gegn lögum um hringamyndun?

ndanfarið hefur töluvert verið rætt um það hvort mikilvægt sé að skráðar reglur gildi um það sem kallað er hringamyndun í atvinnurekstri. Sitt sýnist hverjum en misjafnt er hvort menn berjast fyrir sínum sjónarmiðum með efnislegum rökum eða reyna frekar að þyrla upp ryki til að umræðan fari út um þúfur. Í Viðskiptablaðinu í gær er bent á að ýmsir þeir sem nú berjast gegn lagasetningu gegn hringamyndun hafa í raun unnið málstað sínum ógagn með framgöngu sinni. Þessir aðilar hafi, í stað þess að ræða málið efnislega, reynt að láta svo líta út að andstæðingar þeirra, einkum Morgunblaðið og forsætisráðherra séu í máli þessu að halda fram afstöðu sem sé önnur en þeir hafi áður fylgt. En eins og rakið er í Viðskiptablaðinu þá er afstaða bæði Morgunblaðsins og forsætisráðherra sú sama og jafnan áður, óháð því hvernig vindar blása í atvinnulífinu.

Viðskiptablaðið minnir á að „Morgunblaðið gerði atlögu að viðskiptaveldi Eimskips upp úr 1990“ og rifjar jafnframt upp að þegar á níunda áratug síðustu aldar var Morgunblaðið farið að velta því upp hvort „útþensla fyrirtækisins sé að verða of mikil fyrir þetta fámenna samfélag“. Og Viðskiptablaðið minnir á að strax í stjórnarsáttmála fyrstu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, árið 1991, var eindregið stefnt að „löggjöf gegn einokun og hringamyndun“. Og þetta var tveimur árum fyrir EES, svona ef einhverjum þykir það skipta máli. Og eins og meðal annars kemur fram í Viðskiptablaðinu hefur forsætisráðherra síðan verið áfram um þetta mál. Sama má segja um ýmsa þingmenn Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins, síðar Samfylkingarinnar, og rekur Viðskiptablaðið ýmis gömul og ný stóryrði til dæmis Össurar Skarphéðinssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar í þá átt.

Menn geta haft sínar skoðanir á því hvort eðlilegt sé að lög gildi um það sem kallað er hringamyndun. Gegn því má færa rök, en það gera þeir ekki sem reyna að halda því fram að til að mynda forsætisráðherra og Morgunblaðið sveiflist í málinu eftir því hvernig vindar blási. Bæði blaðið og ráðherrann hafa verið sjálfum sér samkvæm, rétt eins og Vefþjóðviljinn telur sig vera en blaðið hefur jafnan verið andvígt slíkum lögum, rétt eins og blaðið hefur til að mynda verið andvígt samkeppnislögum og öðrum þess háttar hömlum á fólk og einkafyrirtæki. Og þá afstöðu treystir blaðið sér að styðja með rökum en ekki reyksprengjum. Sömu sögu virðist mega segja um greinarhöfund Viðskiptablaðsins, Óla Björn Kárason, sem segir meðal annars:

En í misskilinni leit að pólitískum skotfærum reyna menn að snúa umræðunni á hvolf og virða söguna að vettugi. Skiptir engu hvort í hlut á varaþingmaður eða rithöfundur sem tekur sér skáldaleyfi í þágu málstaðarins. Málatilbúnaður þeirra, eins og annarra sem hafa endaskipti á hlutunum, verður því miður til þess að málstaðurinn bíður skaða af. Og það á ég erfitt með að sætta mig við, enda eindreginn andstæðingur þess að sett verði lög um hringamyndun eða sérlög um eignarhald á fjölmiðlum.

En þó hvorki Morgunblaðið, forsætisráðherra né Vefþjóðviljinn hafi skipt um skoðun á lögum gegn hringamyndun þá er forvitnilegt hvort Samfylkingarmenn, sem þar til fyrir nokkru hafa mikið talað um nauðsyn slíkra laga, hafa gersamlega snúið við blaðinu. Ef þeir hafa einfaldlega sannfærst um röksemdir Vefþjóðviljans og annarra slíkra, og þá væntanlega líka sömu röksemda gegn samkeppnislögum almennt, þá er það fagnaðarefni. Ef þeir eru að skipta um skoðun af öðrum ástæðum, þá er það rannsóknarefni, að minnsta kosti fyrir almenna flokksmenn þeirra.