Laugardagur 17. janúar 2004

17. tbl. 8. árg.

Á

 síðustu áratugum hafa orðið miklar framfarir víða um heim. Fjöldi ríkja hefur byrjað að brjótast úr sárri fátækt og lífskjör sumra ríkja hafa á tiltölulega skömmum tíma gerbreyst. Á fáeinum áratugum hafa sum ríki sem áður bjuggu við fátækt jafnvel náð lífskjörum sem eru svipuð þeim sem þekkjast á Vesturlöndum. Þennan ánægjulega árangur er þó ekki að finna um allan heim og einn heimshluti stingur sérstaklega í augu. Afríka sunnan Sahara hefur nánast alveg orðið eftir í þessari þróun. Sumir hafa viljað kenna utanaðkomandi eða náttúrulegum aðstæðum á borð við léleg ræktarlönd um erfiðleika þessa heimshluta, en slíkar skýringar eiga aðeins að mjög litlu leyti rétt á sér þó að slíkar aðstæður hafi aukið á erfiðleikana sums staðar í álfunni.

Fæstir íbúar Afríku geta sýnt fram á að þeir eigi húsin sín.

Meginskýringin á hörmulegu ástandi í mörgum ríkjum í sunnanverðri Afríku er sú að þar hefur ríkt lögleysa. Bæði vegna þess að lagasetning hefur verið ófullkomin og einnig vegna þess að þar hefur ekki verið hægt að treysta því að yfirvöld tryggðu að farið yrði eftir þeim lögum sem þó hafa gilt. Í nýjasta tölublaði The Economist er fjallað um þennan heimshluta og vanda hans og þar er lögð áhersla á að skýring vandans sé að stórum hluta skortur á eignarrétti. Bændur hafa til dæmis oft ekki talist eiga löndin sem þeir nýta og hafa þess vegna ekki getað ræktað þau upp og gert úr þeim verðmæti. Hér er ekki átt við landtöku í skjóli spillts ríkisvalds líkt og átt hefur sér stað í Zimbabwe á síðustu árum, heldur einfaldlega skort á skilgreiningu eignarréttar. Dæmi um mikilvægi eignarréttarins má til að mynda sjá í íslenskum sjávarútvegi, en hér á landi hafa stjórnvöld á síðustu árum borið gæfu til að úthluta framseljanlegum kvóta, sem er eign útgerðarinnar. Nýting hans verður þess vegna skynsamlegri en ella og er þetta veigamikill þáttur í þeim mikla lífskjarabata sem orðið hefur hér á landi í seinni tíð.

Í The Economist kemur fram að í Afríku sé innan við tíundi hluti lands í formlegri eign, sem þýðir til dæmis að stærstur hluti landsins verður ekki keyptur og seldur, ekki veðsettur fyrir lánsfé sem nýta mætti til jarðarbóta og um landið er ekki gengið með þeim hætti sem menn ganga um eigur sínar. Og þetta á ekki aðeins við um bændur, heldur fjölda annarra Afríkubúa sem myndu gjarna vilja nota eigur sínar til að fá lán fyrir tækjum sem gætu gert þeim mögulegt að auka tekjur sínar. Þetta er ekki mögulegt vegna þess að reglur skortir um eignarhald og í Afríku er til að mynda innan við tíundi hluti húsnæðisins í formlegri eign og þar með veðsetningarhæfur. Árið 1997 reiknaði Hernando de Soto, hagfræðingur frá Perú, það út að slíkar „óformlegar eignir“, eða „dautt fjármagn“ eins og hann kallaði það, væru virði meira en eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala. Þetta er nær þreföld samanlögð landsframleiðsla ríkjanna sunnan Sahara og meira en 70 sinnum sú upphæð sem álfan fær í styrki á ári hverju.

Það eru ekki náttúrulegar aðstæður sem skýra slæmt ástand í sunnanverðri Afríku, heldur skortur á fyrirbærum sem Vesturlandabúar taka á flestum sviðum sem gefnum hlut og þekkjast undir nöfnunum réttarríki og eignarréttur. Sá stuðningur sem íbúar sunnanverðrar Afríku þurfa helst á að halda til að bæta lífskjör sín til lengri tíma litið, er stuðningur og ráðgjöf við að bæta lagakerfi og stjórnkerfi ríkjanna. Ef íbúar þessa heimshluta byggju við góð skilyrði að þessu leyti er engin ástæða til að ætla að þeir gætu ekki náð svipuðum lífskjörum og þekkjast á Vesturlöndum á tiltölulega skömmum tíma.