O f langt mál yrði að telja upp allt það lýðskrum og öll þau atkvæðakaupamál sem sumir þingmenn buðu upp á í vikunni, en þó verður ekki undan því vikist að nefna dæmi. Fjórir þingmenn Samfylkingarinnar vöktu upp gamlan draug með tillögu til þingsályktunar um það sem þingmennirnir kalla „atvinnulýðræði“. Í stuttu máli gengur tillagan út á að „tryggja áhrif starfsmanna á stjórnun og ákvarðanatöku í fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga“. Með öðrum orðum snýst tillagan meðal annars um að svipta eigendur fyrirtækja að hluta til réttinum til að ráðstafa eignum sínum. Það er ekki ýkja langt liðið frá því samflokksmenn tillöguflytjenda vildu þjóðnýta að fullu öll stærri fyrirtæki landsins, en með nútímalegri jafnaðarmennsku hefur þeirri hugmynd verið ýtt til hliðar. Nú á aðeins að þjóðnýta fyrirtækin að hluta til.
Eins og áður segir er tillagan gamall draugur, en það var fyrrverandi þingmaður þjóðvaka, Ágúst Einarsson, sem þá beitti sér mjög fyrir þessari hugmynd. Hann vildi ólmur að sett yrðu lög til að skylda fyrirtæki til að hleypa starfsmönnum í stjórnir sínar, en hefur að vísu reynst alveg ófáanlegur sjálfur til að fylgja þessari stefnu þar sem á hefur reynt. Hann var um árabil í stjórn Granda, meðal annars þegar hann flutti tillöguna. Þar taldi hann sjálfur – og líklega réttilega – að betra væri að hann sem hluthafi kysi sjálfan sig í stjórn en að hann beitti atkvæðisrétti sínum til að tryggja starfsmönnum félagsins stjórnarsæti. Hið sama má segja um þá þingmenn Samfylkingarinnar sem endurvöktu drauginn í vikunni. Þeirra á meðal er Helgi Hjörvar, sem er til að mynda þeirrar skoðunar að betur fari á því að Helgi Hjörvar sitji í stjórn Landsvirkjunar en að þar sitji fulltrúi starfsmanna, enda má að öðrum kosti ætla að þessi fulltrúi R-listans í stjórninni hefði kosið að víkja fyrir fulltrúa starfsmanna.
Annað dæmi, nánast tekið af handahófi úr hópi hæpinna atkvæðakaupatillagna, er af tillögu um jarðgöng. Já, ekki ber á öðru en að enn eitt fjallið hafi orðið á vegi þingmanns á ferð um landið. Og um leið og fjall ber við sjóndeildarhring má sjá glampa á bor í augum sumra þingmanna, það er að segja þeirra sem fúsir eru til að nota nokkra milljarða króna af skattfé til að kaupa sér atkvæði. Í þessu tilviki er þingmaður Suðurlands, Hjálmar Árnason, fyrsti flutningsmaður tillögu um „úttekt á gerð jarðganga í Reynisfjalli“. Hvar skyldi svo þetta ógurlega fjall vera sem nauðsyn krefur að verði borað svo fljótt sem verða má? Jú, fjallið er fyrir vestan Vík í Mýrdal og eins og þingmaðurinn nefndi í tillögu sinni verður það eini hóllinn á leiðinni frá Hveragerði að Djúpavogi eftir að búið verður að bora hjá Höfn í Hornafirði. Og auðvitað eru það fullgild rök fyrir dýrri jarðgangagerð, að annars sé ekki láréttur vegur eftir endilöngu Íslandi sunnanverðu. Næsta verk er svo að tryggja Norðlendingum þau sjálfsögðu mannréttindi að þurfa aldrei að aka upp eða niður brekku, og þá er fátt eftir í mannréttindamálum annað en slétta alla vegi á Austfjörðum og Vestfjörðum, en það er sem betur fer langt komið og vinnst vel.