Helgarsprokið 22. febrúar 2004

53. tbl. 8. árg.

Á

Í viðtölum við fjölmiðla segist  sr. Frank sakna prestsstarfsins.

morgun verður sr. Frank M. Halldórsson sjötugur og lætur því nú af störfum sem sóknarprestur Nessafnaðar í Reykjavík, þar sem hann hefur þjónað í meira en fjörutíu ár. Verður það þá enn óhagstæðara, hlutfallið milli presta af því tagi sem kannski mætti kalla af einhverjum gömlum skóla – þó slíkt hugtak sé kannski flóknara innan kirkju en annarra stofnana – og svo þeirra presta sem kalla mætti nútímalegri, meira í eltingarleik við tíðarandann. Hlutfallið milli þeirra presta sem sækjast ekki eftir sviðsljósi fyrir sjálfa sig og telja sig ekki flytja eigin boðskap heldur annars, og svo þeirra presta sem vilja vera númer sjálfir, sífellt að eltast við það sem þeir halda að tískan heimti hverju sinni, jafnvel grátklökkir og jarmandi yfir einhverju sem þeir halda að þeir eigi að gráta og jarma yfir. Sr. Frank hefur aldrei tilheyrt þessum síðari hópi, en nú lætur hann af embætti og við tekur maður að nafni Örn Bárður Jónsson og er vonandi að hann geri lukku í Nessókn og um land allt.

Reyndar er ekkert nýtt að skipta megi prestum í skrumpresta og aðra – og sjálfsagt lítið til í því að kenna aðra hvora tegundina við nýjan skóla. Eins og Vefþjóðviljinn hefur leyft sér að rifja upp þá eru nær þrjúhundruð ár síðan biskup Jón Vídalín lét þess getið í predikun að hann kallaði ekki þann prest bestan sem hefði „hið mesta alþýðulof af sinni talsgáfu, heldur þann, sem hefur hina bestu tilheyrendur og best til himnaríkis uppfrædda, sem elski Guð og náungann og varðveitti sjálfa sig flekklausa frá heimi þessum.“ Það er þó nokkuð til í þessu eins og mörgu öðru hjá Jóni. „Fagnið ekki yfir því að menn hrósa ykkur“ segir Jón Vídalín og mælist sú ábending eflaust misjafnlega fyrir á þeim hróstímum þar sem flest er frábært og menn setur hljóða ef einhver annar en stjórnmálamaður er gagnrýndur af festu.

„Því færri reglur sem hið opinbera setur, því færri ættu að hafa sanngirnisrök fyrir undanþágum frá þeim. Því færri starfsmenn sem eru í þjónustu hins opinbera, því færri ættu að þurfa að hætta fyrr en heilsa og kraftar myndu mæla með.“

Nóg um það; það stóð ekki til að fara að fjalla hér um ólíkar prestategundir eða upphafningartendens nútímans. Talið barst eingöngu að prestastéttinni þar sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir sá sem lengst hefur starfað af þeim nú eru sóknarprestar í Reykjavík. Og hvað með það? Jú, það leiðir hugann að ósveigjanleika þeirra reglna sem menn hafa komið sér – og öðrum upp. Opinberir embættismenn þurfa að hætta sjötugir og sama regla gildir um presta þjóðkirkjunnar. Engu skiptir hvernig maðurinn hefur reynst, hvernig hann er til heilsunnar, hætta skal hann og getur þá bara farið í sund eða eitthvað annað þar sem hann er ekki fyrir. Eflaust eru margir þeirra hæstánægðir með að láta af störfum, fagna auknum frítíma og vilja miklu fremur sitja heima og hlusta á Chopin en mæta í vinnuna enn eitt árið. En ætli þeir séu ekki einnig margir sem gætu og vildu halda áfram störfum, eru þrautreyndir á sínu sviði og yrðu til töluverðs gagns ef ekki væri komin regla sem bannaði þeim það.

Innsigli engir fengu upp á lífsstunda bið segir sr. Hallgrímur og auðvitað kemur að því hjá hverjum einasta manni að hann lætur af starfi sínu. Aðstæður manna eru hins vegar mismunandi og hálfblóðugt þegar góðir og reyndir starfsmenn hætta sárnauðugir og kannski enginn sem vill þá burt nema þá kannski þeir sem geta vart beðið eftir að komast í þeirra stað. En svona er ósveigjanleiki margra opinberra reglna og hann hefur verið aukinn mjög á síðustu árum. Það þykir faglegt, fínt og nútímalegt. Ein regla fyrir alla, ekkert mat, menn eru bara orðnir of gamlir sjötugir og hananú.

Já, hafa bara eina reglu um öll tilvik, það er auðvitað þægileg leið. Það forðar ráðamönnum líka frá því að þurfa að taka ákvarðanir; reglan tekur bara af þeim ómakið, blind á allar aðstæður og sjónarmið. Það kemur líka í veg fyrir „geðþóttaákvarðnir“ og hver er ekki á móti þeim? En það er nú eins og það er. Geðþóttaákvarðnir eru ekki endilega alltaf svo slæmar, ef út í það er farið. Jú auðvitað er best að almennar reglur gildi á sem flestum sviðum og að sömu reglur gildi um sambærileg tilvik. Hitt er svo annað, að reglur eiga heldur ekki að vera of flóknar og ýtarlegar. Opinberar reglur geta ekki tekið á öllu því sem upp kemur í mannlífinu. Reglur, sem eru kannski bærilega skynsamlegar frá almennu sjónarmiði, geta komið ákaflega þungt niður á örfáu fólki við aðstæður sem enginn sá fyrir þegar reglurnar voru settar. Hversu fast á þá að halda í kenninguna um eina reglu fyrir alla? Aldrei neinar undanþágur? Engar geðþóttaákvarðanir?

Mestu skiptir þó auðvitað að fækka þeim reglum sem hið opinbera setur borgurunum og þeim starfsmönnum sem eru í þjónustu hins opinbera. Því færri reglur sem hið opinbera setur, því færri ættu að hafa sanngirnisrök fyrir undanþágum frá þeim. Því færri starfsmenn sem eru í þjónustu hins opinbera, því færri ættu að þurfa að hætta fyrr en heilsa og kraftar myndu mæla með.