ÍTímariti Morgunblaðsins sem út kom í gær, er ánægjulegt viðtal við félagana Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmann og Davíð Oddsson forsætisráðherra, en sá fyrrnefndi hefur nú gert kvikmynd sem hann byggir á smásögu eftir hinn. Í kvikmyndinni, Opinberun Hannesar, mun meðal annars dregin upp mynd af eftirlitsþjóðfélagi og lúsiðnum starfsmönnum þess, mönnum sem í sífellu reyna að hafa vit fyrir borgurunum, svo að þeir fari sér ekki að voða með flumbrugangi, misskilningi eða klaufaskap. Þeir Davíð og Hrafn segja eitt og annað um sífelldan vöxt eftirlitsþjóðfélagsins og getur Vefþjóðviljinn tekið undir margar af áhyggjum þeirra félaga. Það er sífellt verið að banna fleira og fleira og krefjast undanþágna, leyfa, löggildingar, kynningar, upplýsinga, andmæla og samþykkis áður en eitthvað er leyft. Allt er þetta gert í nafni fagmennsku eða þá réttinda einhverra annarra, en yfirleitt er þessi þróun stórvarasöm. Í hinu ýtarlega viðtali Tímarits Morgunblaðsins kemur meðal annars fram að Davíð Oddsson yrði ekkert hissa þó einhvern tíma yrðu settar reglur um skyldunotkun trefils í frosti. Sennilega yrði deilan þá einkum um það hvort miða ætti við fimm eða sjö stiga frost en ekki hvort yfirleitt ætti að gera trefilsnotkunina að skyldu:
Menn vilja t.d. að bremsur í bíl séu í lagi vegna þess að annars getur ökumaðurinn valdið öðrum stórkostlegum áverkum og skaða. En hvað hefur skyldunotkun öryggisbelta í aftursætum með náungann að gera? Ræð ég því ekki sjálfur hvort ég nota öryggisbelti í aftursæti eða ekki? Nei, kemur svarið, vegna þess að meiðist ég eða slasist mun það kosta ríkið mikil fjárútlát; ég gæti t.d. lent á spítala. Þarna erum við komin býsna nálægt úlpuhugsuninni: Það er ekki mitt mál hvort ég fái lungnabólgu af völdum ónógs skjólfatnaðar vegna þess að ég get valdið ríkinu útgjöldum og þá eru rök fyrir skyldunotkun úlpunnar orðin nægileg. Við eigum bara eftir að setja reglur um þetta. Ég hugsa að þær komi fljótlega. |
Annars staðar í viðtalinu segir forsætisráðherra:
Annað dæmi: Vilji einhver ekki hafa lágt til lofts í stofunni hjá sér má hann ekki hafa það lægra en 2,40. Ef ég er 1,60 á hæð finnst mér ég óþægilega lítill með svona mikla lofthæð. Hvers vegna má hún ekki vera 2,20? Svarið: Ja, við teljum betra að hún sé 2,40. Af hverju má ég ekki ráða þessu? Staðan er sú að við erum hætt að spyrja þeirrar eðlilegu og sjálfsögðu spurningar. Við beygjum okkur sjálfkrafa undir þær reglur sem að okkur er haldið. |
Nú heldur einhver kannski að forsætisráðherra fari hér með tómt bull. Og það væri svolítið til í því. Samkvæmt byggingarreglugerð þá má ekki einu sinni vera með 2,40 eins og Davíð hefur minnt. Lágmarkshæð „í fullfrágengnum íbúðarherbergjum“ er núna tveir og fimmtíu takk. En annað er eftir hinum ótrúlega raunveruleika. Dæmin sem Davíð og Hrafn nefna í viðtalinu eru fjölmörg og verða ekki rakin hér heldur verður látið nægja að hvetja fólk til að kynna sér viðtalið við þá félaga og vita svo til hvort viðhorf þeirra vekja ekki einhverja til umhugsunar.
Nú segir eflaust einhver að Davíð sé áhrifamikill stjórnmálamaður og hefði sem slíkum átt að vera í lófa lagið að stöðva þá þróun sem hann lýsir í viðtalinu. Og víst hafa stjórnmálamenn áhrif, að minnsta kosti ýmsir. Hitt er annað mál að þungi þessarar þróunar er gríðarlegur, samfelldur og úr nær öllum áttum. Meðan fáir verða til þess að andæfa þessari þróun verður erfitt að stöðva hana; stundum geta menn ekki gert betur en að hægja á henni, ná því versta úr lögum og reglugerðum og svo framvegis. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að sem flestir frjálslyndir menn láti í sér heyra og andmæli stjórnlyndiskórnum og þá ekki aðeins þegar hann beinir spjótum sínum að því sem hinum frjálslynda er annt um. Ef enginn nema einkadansarar og viðskiptavinir þeirra mótmæla banni við einkadansi, þá munu hinir stjórnlyndu vinna þá baráttu. Ef engir nema áhugamenn um hnefaleika taka upp boxhanskann fyrir hnefaleikara þá munu hinir stjórnlyndu vinna þann slag. Ef engir nema reykingamenn standa vörð um rétt veitingahúsaeigenda til að ráða því sjálfir hvort hjá þeim er reykt eða ekki, þá munu þau réttindi fuðra upp.
Ljúkum þessum hugleiðingum á orðum þeirra félaga. Davíð segir:
Tökum dæmi af kirkjugörðunum. Þar ákveður núna landslagsarkitekt að á tilteknum reit skuli vera lágvaxin grenitré eða eitthvað slíkt. Það yndislegasta við gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu er ekki samræmið, heldur óreglan og fjölbreytnin. En svona erum við orðin óskaplega reglustikuð. Ég vil að fólk brjóti svona reglur og planti þeim trjám á leiði ástvina sinna sem því finnst við hæfi en ekki samkvæmt fyrirmælum landslagsarkitekta. |
Og Hrafn bætir við og er vonandi að síðari fullyrðing hans verði jafn sönn og sú fyrri:
Allt mitt líf hef ég stundað það að brjóta svona reglur. Og ég held að þetta hljóti að fara að breytast. Hér muni koma önnur kynslóð sem snýst gegn þessari miðstýringu og setur einstaklingsfrelsið í öndvegi. |