Þriðjudagur 30. desember 2003

364. tbl. 7. árg.
Sælgætismoli frá Íbúðalánasjóði, sérinnpakkaður með merki sjóðsins. Þótt molinn sé bæði mjúkur og gómsætur er hætt við að  hann stæði í kunningja Víkverja.

Ef virðing hins opinbera fyrir sjálfsaflafé manna hefur verið takmörkuð þá hefur virðingin fyrir tíma manna verið engin. Hið opinbera hefur þannig lengi haft gaman að því að senda almenna borgara á milli staða með pappíra, vottorð, eyðublöð, skýrslur og skjöl. Og þegar hægt er að hafa sendiferðirnar fleiri en færri þá er það færi gripið. Flestir þurfa að eiga einhver samskipti við bankann sinn þegar þeir kaupa húsnæði. Þó ekki væri nema þess að bankarnir gera svonefnd greiðslumat sem er forsenda fyrir lánum með ríkisábyrgð frá Íbúðalánasjóði ríkisins.

Ríkið, eða öllu heldur almennir skattgreiðendur, niðurgreiða ekki aðeins vexti húsnæðislána með því að gangast í ábyrgð fyrir heldur eru greiddar vaxtabætur til þeirra sem hafa skuldsett sig mest miðað við tekjur. Því meiri skuldir í hlutfalli við íbúðarverð og tekjur því hærri skattfrjáls verðlaun eru veitt. Hið opinbera hefur oft boðið upp á lánafyrirgreiðslu til furðulegustu verkefna og sérstakar stofnanir eins og Byggðastofnun hafa starfað í þeim tilgangi að lána mönnum og fyrirtækjum sem litlar líkur eru á að endurgreiði lánin. Vaxtabótakerfið hefur hins vegar þá sérstöðu að það hvetur hinn almenna mann til skuldsetningar. Það beinlínis verðlaunar menn fyrir að reisa sér hurðarás um öxl.

Nú vilja Framsóknarmenn auka ríkisumsvifin á húsnæðismarkaði, stækka hlut ríkisins í lánastarfsemi með því að Íbúðalánasjóður láni fyrir allt að 90% af verði íbúðar og þar með að skattgreiðendur gangist í ábyrgð fyrir enn hærra veðsetningarhlutfalli en áður. Á fundi sem haldinn var fyrir kosningar í maí kynntu Framsóknarmenn tillögur um 90% húsnæðislán með þeim rökum að heimilin í landinu væru með 60 milljarða króna í yfirdrátt í bönkum og greiddu af þessum skammtímalánum háa vexti. Með því að veita fólki 90% húsnæðislán í stað 65 – 70% eins og nú er gæti það losað sig við yfirdráttarlánin! Þetta fannst án efa einhverjum kjósendum sniðugt, ekki síst þar sem auglýsingar flokksins um þessi mál þóttu líka sniðugar.

Það sem Vefþjóðviljinn vildi sagt hafa áður en hann fór út af sporinu vegna þarfar Framsóknarmanna fyrir aukin ríkisumsvif er að Íbúðalánasjóður er dæmi um stofnun sem veldur mönnum óþarfa snúningum. Í stað þess að ganga frá málum við bankann sinn þurfa menn að fara ótal ferðir í Íbúðalánasjóð til viðbótar ferðunum í bankann. Menn geta bara hugsað sér hvað þetta þýðir fyrir „kunningja Víkverja“, óheppnasta mann í heimi, sem hvarvetna kemur að lokuðum dyrum hjá þjónustustofnunun og misskilur allt sem hægt er að misskilja. Þetta er ef til vill ekki stórmál fyrir aðra og sem betur fer þurfa menn af jafnaði ekki að skipta um húsnæði nema nokkrum sinnum á ævinni. En þegar hægt er að komast hjá svona löguðu er sjálfsagt að gera það.