Þriðjudagur 9. september 2003

252. tbl. 7. árg.

Fyrir þremur vikum eða svo var skipaður nýr hæstaréttardómari. Var sú skipun rædd nokkuð næstu daga á eftir og nokkrir þeirra umsækjenda sem ekki urðu fyrir valinu óskuðu rökstuðnings ráðherra fyrir vali hans. Ekkert óeðlilegt við þetta og sjálfsagt að veita ráðamönnum eðlilegt aðhald með málefnalegri umræðu um embættaveitingu og allt í lagi þó vonsviknir umsækjendur fái skýringu á því að einhver annar var valinn. Í gærkvöldi ákvað fréttastofa Ríkissjónvarpsins hins vegar að reyna að endurvekja þetta mál með því að leggja hálfan kastljóss-þátt undir það eitt, og það án þess að nokkuð nýtt hefði komið fram á síðustu dögum. En þó ekkert nýtt hafi komið fram á síðustu dögum þá gerðist það hins vegar í þættinum. Þá fullyrti fréttamaðurinn að dómsmálaráðherra, sem eins og ítrekað hefur komið fram horfði meðal annars til sérmenntunar eins umsækjandans í Evrópurétti, hefði gengið fram hjá umsækjanda sem hefði þó skrifað 300 blaðsíðna bók um Evrópurétt. Ætli þessi fréttamaður geti á næstunni séð af stuttri stund til að útskýra fyrir áhorfendum hvaða umsækjanda hann átti við, og ekki síður hver hin merka bók er? Vefþjóðviljinn leyfir sér að efast um að nokkur þessara umsækjenda hafi skrifað 300 blaðsíðna bók um Evrópurétt. Einn umsækjenda, Eiríkur Tómasson, hefur reyndar skrifað bók svo Vefþjóðviljinn muni, Réttláta málsmeðferð fyrir dómi, en hún fjallar um eina grein í mannréttindasáttmála Evrópu en kemur Evrópurétti ekki við. Mannréttindasáttmáli Evrópu er alþjóðlegur samningur fjölmargra fullvalda ríkja um tilteknar lágmarkskröfur í ákveðnum málaflokki og er allt annað en svokallaður Evrópuréttur. Hvernig ætli standi á þessari fullyrðingu fréttamannsins? Ætli hann geti staðið við hana með því að nefna höfund og bók? Og ef ekki, ætli hann verði þá maður til þess að leiðrétta fullyrðingu sína? Og ætli nokkur annar fréttamaður muni biðja hann um skýringar á þessari fullyrðingu hans? Nei sjálfsagt ekki; fréttamenn forðast mest af öllu að veita öðrum fréttamönnum aðhald.

S

Skyldi þessi varalitur uppfylla öll skilyrði Evrópusambandsins?

tuðningsmenn þess að Ísland verði innlimað í Evrópusambandið halda því gjarna fram málstað sínum til stuðnings að Evrópusambandið þröngvi engum stöðlum upp á íbúa sambandsins og setji í raun engar reglur. Allt tal um slíkt sé á misskilningi byggt. Þetta er auðvitað ótrúlegur málflutningur þegar staðreyndir liggja á borðinu og fjöldi dæma er til sem sýna hið gagnstæða. Kurteislegra orð en ósannindi er ekki viðeigandi til að lýsa þessari furðulegu framgöngu stuðningsmannanna. Eitt lítið dæmi um reglur sem Evrópusambandið setur eru reglur um merkingar á vörum um endingartíma þeirra. Slíkar reglur hafa verið til um ýmsar vörur, til dæmis um snyrtivörur með minni endingartíma en þrjátíu mánuði. Nú hafa verið settar reglur um að herða á þessari merkingu, þannig að allar snyrtivörur skuli merktar, bæði þær sem endast minna en þrjátíu mánuði og hinar sem endast lengur.

Málið hefur vitaskuld fengið faglega meðferð eins og Evrópusambandið greinir stolt frá á heimasíðu sinni. Sérstakt merki hefur verið hannað og vitaskuld bæði í samráði við framleiðendur og aðildarríkin, enda skal þess sérstaklega gætt að íbúar hvarvetna í sambandinu skilji merkinguna. Ekki er getið um hver kostnaðurinn af vinnunni í kringum merkið var, en hætt er við að hann hafi verið töluverður og kallað á mikil ferðalög og langar fundasetur með sérfræðingum í merkingum varalita og maskara. Á heimasíðunni er haft eftir einum af embættismönnum sambandsins, Erkki Liikanen, að þessi aðgerð „færi neytendum dýpri upplýsingar um snyrtivörurnar sem þeir nota“, en Liikanen greinir ekki frá því hve mikið neytendur þurfa að greiða aukalega fyrir augnskuggann eða kinnalitinn til að fá að njóta þessara djúpu upplýsinga.

Þessar merkingar eru nefndar hér vegna þeirrar þráhyggju stuðningsmanna Evrópusambandsins að reyna að halda því að fólki að Evrópusambandið setji engar reglur og staðli ekki nokkurn hlut. En merkingarnar eru líka umhugsunarverðar út frá því sjónarmiði hvort slíkar reglur eru yfirleitt æskilegar. Ef neytendur teldu þessar reglur mikilvægar má slá því föstu að einhverjir framleiðendur sæju sér hag í að merkja vörur sínar og þeir þyrftu vafalítið færri fundi en Evrópusambandið til að finna nothæft merki. Ef neytendur eru ekki þeirrar skoðunar að þeir séu betur settir með „best fyrir“-merkingar á púðurdósinni, eða telja þessar upplýsingar ekki peninganna virði, þá er engin ástæða fyrir Evrópusambandið eða önnur yfirvöld að leggja slíkan aukakostnað á púðurdósina.

Að lokum þetta: „Það er ótrúlegt að þetta landslið sé skipað sömu leikmönnum og gaufuðust um grundir Glasgowborgar í mars eins og höfuðlaus her undir pilsfaldinum á Skotum“ skrifaði Óskar Hrafn Þorvaldsson, íþróttafréttamaður DV í blað sitt í gær. Þetta er nú ekki alveg nákvæmt því þetta er alls ekki sama liðið og gerði í buxurnar í Skotlandi. Núna var þessi Bergsson ekki í liðinu.

Og svo alveg að lokum þetta: Flosi Arnórsson stýrimaður kom til landsins í gær. Það er ófyrirgefanlegt af yfirvöldum að hafa ekki tekið hann í tollinum. Bara fyrir eitthvað.