„Það skiptir máli hverjir stjórna.“ |
– eitt helsta slagorð Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni. |
„Meðferð valds er pólitískt aðalatriði.“ |
-Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í DV-viðtali 5. maí 2003. |
Stjórnmálamenn sem þannig tala, hljóta sjálfir að hafa allt sitt á þurru, eða hvað? Í sex mánuði hefur Kjartan Magnússon borgarfulltrúi ekki fengið svör við einfaldri fyrirspurn sinni um launakjör vegna ráðningar tilsjónarmanns með rekstri Alþjóðahússins ehf. Á síðastliðnu hausti ákvað stjórn fyrirtækisins að ráða sérstakan tilsjónarmann tímabundið til að fara yfir fjármál þess sem voru í ólagi. Í stjórninni hafði verið rætt um að leita hagstæðustu leiða við ráðninguna, ekki síst vegna bágrar fjárhagsstöðu hússins. Hafði verið um það rætt að fenginn yrði viðurkenndur aðili innan borgarkerfisins til að sinna verkefninu og voru ákveðin nöfn nefnd í því sambandi. Reykjavíkurborg var þá meirihlutaeigandi í fyrirtækinu með 63% hlutafjár.
Á stjórnarfundi hinn 11. nóvember var upplýst að ekki hefði verið leitað til umræddra aðilja innan borgarkerfisins þar sem sérstök ósk hefði borist um það frá fulltrúum þáverandi borgarstjóra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að Hákon Gunnarsson ráðgjafi yrði ráðinn til verksins. Var það einnig upplýst að ráðhúsið væri búið að semja um ákveðna þóknun til ráðgjafans vegna verksins þótt eðlilegra hefði mátt telja að Alþjóðahúsið annaðist þann þátt málsins. Ákveðin launaupphæð var nefnd sem stjórnarmönnum var tjáð að væri trúnaðarmál. Meirihluti stjórnar Alþjóðahússins ákvað að fara að tilmælum borgarstjóra og réð Hákon í verkið. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og stjórnarmaður í Alþjóðahúsinu, lét bóka að hann teldi umrædda launaupphæð of háa og að eðlilegt hefði verið að leita tilboða í verkið eða leita til starfsmanna borgarinnar að vinna verkið á hagkvæman hátt. Óskaði hann einnig eftir að fá uppgefna endanlega samningsupphæð vegna verksins.
Þess má jafnframt geta að umræddur ráðgjafi, Hákon Gunnarsson, var kosningastjóri Samfylkingarinnar fyrir síðustu Alþingiskosningar. Ráðgjafinn er auk þess kvæntur Bryndísi Hlöðversdóttur, vinkonu og helsta bandamanni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur innan þingflokks Samfylkingarinnar. Muna margir hve Ingibjörg Sólrún studdi Bryndísi dyggilega þegar hin síðarnefnda bauð sig fram gegn Jóhönnu Sigurðardóttur í annað sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar á liðnu hausti þótt sá stuðningur hefði ekki dugað til að fella Jóhönnu úr forystusætinu í Reykjavík suður. Svo náin tengsl milli málsaðila ættu að hvetja þá til að haga skiptum sínum þannig að síður vekti tortryggni.
Þegar hartnær þrír mánuðir voru liðnir án þess að Kjartan fengi umbeðnar upplýsingar um upphæð ráðgjafarlaunanna, tók hann málið upp á borgarstjórnarfundi 30. janúar síðastliðinn og óskaði formlega eftir vitneskju um umrætt verk, hve háa þóknun umræddur ráðgjafi hefði fengið í laun og hve mikla vinnu hann hefði innt af hendi. Beindi hann spurningum sínum til Ingibjargar Sólrúnar, þáverandi borgarstjóra, þar sem hún hafði beitt sér fyrir ráðningunni. Ingibjörg Sólrún sá sér ekki fært að leggja umræddar upplýsingar fram á fundinum en lofaði að Kjartan fengi þær í hendur með öðrum hætti. Síðan Ingibjörg Sólrún gaf þetta loforð, hafa liðið 99 dagar, en Kjartan Magnússon hefur enn engin svör fengið. Hefur hann þó ítrekað spuringar sínar í borgarstjórn og sent sérstakt erindi til borgarráðs þar sem óskað er eftir því að það hlutist til um að leynd verði létt af umbeðnum upplýsingum sem fyrst.
Geta menn rétt ímyndað sér hvernig sumir fjölmiðlar hömuðust ef einhver ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði ráðið kosningastjóra flokksins í sérverkefni á vegum hins opinbera og samið um laun við hann framhjá stjórn viðkomandi stofnunar og neitaði síðan að gefa kjörnum fulltrúum eða fjölmiðlum upp launaupphæðina eða upplýsingar um umfang verksins svo mánuðum skipti.
En hér sannast að það „skiptir máli hverjir stjórna“ þegar gerðar eru kröfur til stjórnvalda.