Það er auðvelt að lofa. Hver sem er getur lofað hverju sem er. Það er ekkert mál. Það eru hins vegar efndirnar sem ekki eru á allra færi – og ekki á allra áhugasviði. Þegar kjósendur bera saman loforð flokka og framboða, þá horfa þeir vitaskuld ekki einungis til þess hverju er lofað heldur jafnframt til þess hverjir það eru sem lofa. „Myndirðu kaupa notaðan bíl af þessum manni?“ er stundum spurt, og ekki alveg út í loftið. Sumir hafa unnið sér traust með framgöngu sinni í áranna rás, aðrir hafa getið sér það orð að heit þeirra og loforð séu harla lítils virði.
Þegar til dæmis skattatillögur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar voru bornar saman á dögunum, meðal annars af Ríkisskattstjóra, þá kom í ljós að allir þeir sem fá 105 þúsund krónur eða hærra í laun fyrir skatta hagnast meira af tillögum Sjálfstæðisflokks en Samfylkingar. En við þennan samanburð var einu sleppt, sem embætti eins og Ríkisskattstjóri gat vitanlega ekki tekið með í reikninginn. Það er mikill munur á því hvor flokkurinn er líklegri til að framkvæma tillögur sínar. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram til borgarstjórnar undir forystu Davíðs Oddssonar, þá hafði hann jafnan þann sið að birta fyrir kosningar lista yfir loforð sín, og var lokaloforðið ætíð það að við lok kjörtímabilsins yrði listinn birtur að nýju með skýrslu um efndir. Eins og borgarbúar yfir tvítugu muna, þá var listinn ætíð efndur. Eru ekki flestir sammála um það, að þeir vita hvar þeir hafa núverandi forsætisráðherra? Hvort sem þeir eru sammála honum um einstök mál eða ekki, þá vita þeir hvar þeir hafa hann og vita að orð hans standa.
Þessi er annar meginkosturinn í kosningunum í dag. Hinn kosturinn, hann er svo ábyggilegur að hann hefur beinlínis marglofað því að vera ekki í framboði í dag. Lofaði stuðningsmönnum sínum og samstarfsmönnum því vikum og mánuðum saman, en sveik það svo um leið og hún hélt það þjónaði stundarhagsmunum sínum. Þessi stjórnmálamaður hefur auðvitað svikið ýmis önnur loforð sín, svo um að hækka ekki skatta og útrýma biðlistum. En gegn öllum slíkum svikum má færa einhverjar sýndarvarnir, alltaf má reyna að benda á eitthvað í umhverfinu sem gerði efndir ómögulegar. En loforðið um að sitja kyrr í Ráðhúsi og bjóða sig ekki fram til þings, það loforð er ekki svikið vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. Það var einfaldlega svikið vegna þess að umræddur stjórnmálamaður heldur ekki orð sín frekar en henni hentar.
Heldur einhver virkilega að þessi stjórnmálamaður muni knýja skattalækkanir í gegn í vinstri stjórn þar sem Steingrímur J. Sigfússon verður næstum óhjákvæmilega fjármálaráðherra? Sjá ekki allir, að ef menn á annað borð vilja að skattar verði lækkaðir á Íslandi þá verður það aðeins gert í ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins? Getur einhver nefnt mörg dæmi um að vinstri stjórn, hvort sem er ríkis eða borgar, hafi lækkað nokkurn skatt? Ef skattar verða ekki lækkaðir núna þegar tök eru á, þá verða þeir ekki lækkaðir í bráð.
Forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar kynnti nýstárlegar stjórnmálakenningar í umræðum forystumanna stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal í gærkvöldi. Fyrst gagnrýndi hún Sjálfstæðisflokkinn fyrir þá stefnu að vilja lækka skatta meira á næsta kjörtímabili en nokkur annar flokkur því hann myndi ekki hafa ráð um það einn. Í öðru lagi taldi hún eðlilegt að Samfylkingin hefði lagt stefnu sína um að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu til hliðar þar sem enginn annar flokkur hefði slíka stefnu. Þegar betur er að gáð er þetta nú eiginlega bara ein kenning en sett fram með tveimur góðum dæmum. Ef nefna ætti fleiri dæmi mætti taka fjölþrepaskattkerfi Samfylkingarinnar sem hvarf eins og dögg fyrri sólu þegar aðrir flokkar sýndu því lítinn skilning.
Nú hefur auðvitað hver sinn smekk á því til hvers stjórnmálaflokkar eru. Sumir telja þá einfaldlega tæki til að komast til valda. Ekki er hægt að neita því að þetta viðhorf hefur reynst ýmsum framagosum ágætlega þótt nú hafi verið stofnaður sérstakur flokkur, Nýtt afl, fyrir þá sem hafa brennt sig á metorðastriti í öðrum flokkum. Aðrir gera jafnvel þá kröfu að stjórnmálaflokkar séu stofnaðir utan um hugmyndir af einhverju tagi, skynsamlegar eftir atvikum, sem flokkurinn eigi helst að halda sig við í meginatriðum þótt stundum kunni að blása á móti. Það er nefnilega hætt við að lítið yrði um breytingar ef enginn flokkur þyrði að leggja fram stefnu sem væri á skjön við stefnur annarra flokka. Og heldur yrði baráttan um kjósendur bragðdauf ef flokkar losuðu sig jafnharðan við stefnumál sem væru ekki í samræmi við stefnur annarra flokka.
Kannski felast svonefnd „samræðustjórnmál“ í því að allir sitji og ræði sama hlutinn á sama hátt þótt ekki sé gott að átta sig á því hvaðan hann ætti að koma í byrjun ef enginn flokkur þorir að leggja fram hugmyndir sem aðrir hafa ekki þegar viðrað.
Ídag er kosið um allt land. Margir búa sig upp í tilefni dagsins, aðrir fara í hversdagsklæðum og ýmsir kjósa alls ekki. Rétt er að minna alla kjósendur á, að áróður á kjörstað er stranglega bannaður og þykir ætíð merki um hina mestu ósvífni. Algerlega bannað að mæta á kjörstað með veifur, borða eða barmmerki flokka eða framboða. Langflestir virða þessa reglu enda má ætla að nær öllum sé vel um hana kunnugt. En eins og meðfylgjandi mynd minnir á, þá eru undantekningar frá flestu, en til þess eru vítin að varast þau. Góða skemmtun.