„Að síðustu: Sólríkt og gleðilegt sumar – undir velferðarstjórn.“ |
– Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG í Morgunblaðsgrein á kjördag. |
„Samfylkingin vill breyta verkefnum hins daglega lífs í opinber málefni og gera almenna velsæld að daglegu viðfangsefni stjórnmálamanna.“ |
– úr ávarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í kosningabæklingi Samfylkingarinnar. |
Það verður líklega ekkert af því í bráð að „undir“ velferðarstjórn verði „verkefnum hins daglega lífs breytt í opinber málefni“ hér á landi. Að minnsta kosti ekki undir velferðarstjórn stjórnarandstöðuflokkanna sem mistókst í gær það yfirlýsta ætlunarverk sitt að fella ríkisstjórnina.
„Þetta er sami Össur og segir nú að loknum kosningum að sá draumur sinn hafi ræst að hægt sé að mynda ríkisstjórn Samfylkingar og Framsóknarflokks. Í kosningunum í gær fengu þessir flokkar samanlagt 48,7% atkvæða en engu að síður meirihluta þingmanna. Væri stjórn þessara flokka áfall fyrir lýðræðið?“ |
Eftir átta ára forystu í ríkisstjórn árið 1999 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 3,5% yfir meðalfylgi sínu í kosningum það ár. Í kosningunum í gær eftir tólf ára stjórnarforystu fór flokkurinn 3,5% undir meðalfylgi sitt. Það er auðvitað ekki hlaupið að því að skýra hvers vegna þetta er upp og niður með þessum hætti. Sennilega eru þær margar skýringarnar enda um talsverða sveiflu að ræða. Ef Vefþjóðviljinn fengi að kveða upp úr um þetta atriði hvað kosningarnar í gær varðar myndi hann líklega byrja á því að staldra við áhugamál sitt, skattamálin. Það var auðvitað bæði undarlegt og óþarft að Sjálfstæðisflokkurinn lenti í vörn í skattamálum fyrir þessar kosningarnar. Undarlegt vegna þess að skatthlutföll hafa að sönnu verið lækkuð frá því sem þau fóru hæst. Óþarft því það hefði mátt koma í veg fyrir þessa gagnrýni með meiri skattalækkunum en þær hefðu dregið úr miklum tekjuauka ríkissjóðs á síðustu árum. Þessi mikla aukning tekna (og raunar útgjalda) ríkissjóðs frá síðustu kosningum var snöggur blettur á stöðu flokksins í ríkisfjármálum og skattamálum. Andstæðingar flokksins gátu bent á að skattar væru stærri hluti landsframleiðslunnar en áður. Vegna mikilla launahækkana á liðnum árum voru einstaklingar að greiða hærra hlutfall tekna sinna í skatta en áður. Eina ráðið gegn þessu var meiri skattalækkun.
Svo eru það allar hinar skýringarnar eða sumar af þeim sem nefndar hafa verið.
Er ekki borðleggjandi að nefna „breytinga“-áróðurinn fyrstan? Eftir tólf ára stjórnarsetu er ekki útilokað að einhver gleypi við því að það sé hollt og gott að breyta um stjórn hvað sem kann að koma í staðinn. Og eru menn ekki viljugri að taka slíka sjénsa eftir langvarandi góðæri en þegar verr árar?
Meðan frambjóðendur og almennir félagsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sjálfsagt flestir gert sitt besta til að koma í veg fyrir að landsmenn lentu „undir“ vinstri stjórn gerðu nokkrir fyrrverandi þingmenn og ráðherrar flokksins sitt versta. Á listum annarra flokka sátu nú sjö frambjóðendur sem setið höfðu á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þar af tveir verið ráðherrar um samtals tólf ára skeið. Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Kristján Pálsson, Sverrir Hermannsson, Jón Magnússon, Sigurlaug Bjarnadóttir og Matthías Bjarnason; sjálfstæðisfólk varð að berjast án þessara fyrrum félaga sinna í kosningunum í gær, og hefði marga flokka munað um minna.
Umræður um sjávarútvegsmál voru óvænt efst á baugi í kosningabaráttunni. Þrátt fyrir að hér sé sjávarútvegur rekinn sem alvöru atvinnugrein, en ekki hluti af opinberum styrkjakerfum eins og í mörgum öðrum löndum, hafa ýmsir haft horn í síðu aflamarkskerfisins. Þessi andstaða við aflamarkskerfið hefur þó aldrei virst hafa nein úrslitaáhrif um kosningar hér á landi. En þessar kosningar voru óvenjulegar að því leyti að hér er allt í lukkunnar velstandi á flesta efnahagslega mælikvarða. Atvinnuleysi með því minnsta í vestrænum löndum, verðbólga lág, hagvöxtur mikill, kaupmáttur hefur vaxið 9 ár í röð og hver veit hvað. Kannski fékk þessi óánægja því meira vægi en ef stjórnarandstaðan hefði haft fleiri sóknarfæri gegn stjórninni í hinum almennu efnahagsmálum. Það blasir þó við að þeir flokkar sem hin síðari ár hafa staðið einir vörð um aflamarkskerfið hafa tryggan meiri hluta á Alþingi.
Svo má velta því fyrir sér í þessu sambandi hvort auglýsingar hafa haft meira að seigja en venjulega vegna góðærisins og þar með lítils ágreinings um málefni. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn auglýstu að öllum líkindum mest fyrir þessar kosningar og kannski hefur það haft eitthvað að segja að þessu sinni. Hver veit?
En þá að öðrum tíðindum kosninganna. Það vekur auðvitað athygli að Framsóknarflokkur og Samfylking eiga nú kost á því að mynda meirihlutastjórn á þingi og hefur Össur Skarphéðinsson ekki legið á liði sínu síðustu klukkustundirnar að benda á þennan möguleika. Í forsetakosningum í Bandaríkjunum er kosið um kjörmenn í hverju ríki fyrir sig. Þessir kjörmenn velja forsetann. Í síðustu kosningum fékk George W. Bush ekki meirihluta atkvæða á landsvísu en fékk engu að síður meirihluta kjörmanna og var rétt kjörinn forseti. Rætt var við Össur Skarphéðinsson um þessa niðurstöðu í Morgunblaðinu 15. desember 2000 og þar segir meðal annars: „Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að úrslit forsetakosninganna séu áfall fyrir lýðræðið. Niðurstaðan hljóti að leiða til umræðu um breytingar á fyrirkomulagi kosninganna og talningar atkvæða, þannig að í framtíðinni verði ekki mögulegt að verða forseti með færri atkvæði en sá sem tapar.“
Þetta er sami Össur og segir nú að loknum kosningum að sá draumur sinn hafi ræst að hægt sé að mynda ríkisstjórn Samfylkingar og Framsóknarflokks. Í kosningunum í gær fengu þessir flokkar samanlagt 48,7% atkvæða en engu að síður meirihluta þingmanna. Væri stjórn þessara flokka áfall fyrir lýðræðið?
Að lokum er svo rétt að halda því til haga að svonefndir kvenréttindasinnar, femínistar, náðu stórfenglegum árangri í þessum kosningum með því að hvetja menn til að kjósa Samfylkinguna. Þessir femínistar hafa nefnilega talað um fátt meira en „hlutfall kynjanna“ hér og þar, ekki síst á Alþingi. Undir þessum hvatningarópum um að kjósa Samfylkinguna voru fimm þingkonur Sjálfstæðisflokks felldar út fyrir karla úr vinstri flokkunum. Ásta Möller, Katrín Fjeldsted, Sigríður Ingvarsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir féllu allar af þingi fyrir karlpening úr Samfylkingu og Frjálslynda flokki. Konum á þingi fækkar um fjórar og hið heilaga „jafna hlutfall kynjanna“ er fjær en áður. Að því ógleymdu að „forsætisráðherraefnið“ sem átti sérstaklega að kjósa einvörðungu vegna þess að það er kona, ja það náði ekki kjöri.