Fimmtudagur 8. maí 2003

128. tbl. 7. árg.
Samfylkingin hefur það líka sér til ágætis að hafa upp á að bjóða forystumann sem enginn getur efast um að myndi vel valda því hlutverki að leiða ríkisstjórn á Íslandi.
– Illugi Jökulsson á Stöð 2, 6. maí og endurtekið í auglýsingu Samfylkingarinnar morguninn eftir.

Góðan daginn góðir gestir. Hann bara styður Samfylkinguna. Eftir að Illugi Jökulsson hefur talað máli stjórnarandstöðunnar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í ræðu og riti í meira en áratug – gamanlaust, er það nema í einum pistli allan síðasta áratug sem hann hefur haft nokkurt jákvætt orð að segja um núverandi forsætisráðherra? – þá bara gerist sá ótrúlegi atburður að Illugi Jökulsson flytur óvæntan kosningapistil um Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Og Samfylkingunni varð svo mikið um að hún varði einni af mörgum heilsíðuauglýsingum sínum í Morgunblaðinu í gær til að auglýsa tíðindin.

Og það getur bara enginn efast um að Ingibjörg Sólrún sé mikill leiðtogi, segir Illugi Jökulsson. Nei, það hefur nú aldrei vafist fyrir þessu fólki að tala fyrir alla aðra. Meira að segja Fréttablaðið, sem seint verður ásakað um að halla máli Ingibjörgu Sólrúnu í óhag, greindi frá því á forsíðu um síðustu helgi að traust fólks á henni hefði hvorki meira né minna en hrapað á liðnum vikum. En það vefst ekki fyrir Illuga Jökulssyni að ákveða fyrir okkur öll að ekkert okkar geti einu sinni efast um sólina hans. Hvert er raunveruleikaskyn þeirra manna sem fullyrða – eða þá hinna sem síðan auglýsa fullyrðingarnar – að enginn efist um neitt hjá st. Ingibjörgu? Venjulegt fólk veit hinsvegar vel að það er geysilegur fjöldi sem efast um þennan frambjóðanda, frambjóðandann sem einn manna lofaði því hátíðlega að vera bara alls ekki í framboði. Það eru ófáir sem telja sig hafa ákaflega ríkar áherslur til að efast um leiðtogahæfileika þessa frambjóðanda sem virðist miða allar sínar aðgerðir við skoðanakannanir. Þetta veit venjulegt fólk sem hefur fylgst með ferli þessa frambjóðanda, sumt í meira en 20 ár. Það fólk sem man eftir þessum frambjóðanda áður en ímyndarfræðingar rýnihópanna tóku að endurhanna hana veturinn 1993, veit alveg um hvað þessar kosningar snúast í raun.

En þó Illugi Jökulsson og Samfylkingin fullyrði af umburðarlyndi sínu að enginn geti efast um leiðtogahæfileika Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa, þá er það bara ekki þannig. Og þó það sé svo augljós staðreynd að ekki þurfi að taka nein dæmi henni til staðfestingar, þá ætlar Vefþjóðviljinn að gera það, svona í tilefni af því að þar mælir maður sem vinstri menn eru nýfarnir að hefja til skýjanna sem sérstakan þjóðfélagsrýni með einstætt innsæi. Í tímaritsgrein sumarið 2002 skrifaði Hallgrímur Helgason:

Það verður örugglega mjög gott fyrir Samfylkinguna að fá Sollu fyrir formann en kannski spurning hvort það verður jafn gott fyrir Ísland. Hún er vinsæl og mun færa flokknum fylgi en gallinn við hana er sá að hún þorir ekki að vera óvinsæl. Og það hlýtur að vera löstur á stjórnmálamanni. Hún hefur ítrekað veigrað sér við því að taka óvinsælar ákvarðanir, sama hvort það er flugvöllinn burt eða byggingaframkvæmdir á „Eyjabökkum Reykjavíkur“; „útivistarsvæðinu“ góðkunna við Glæsibæ þar sem aldrei sést neinn fyrir utan manninn sem næstum varð úti þar um árið. Í flugvallarmálinu tók borgarstjóri reyndar ákvörðun en ákvað að friða okkur með sýndarkosningum þegar hún heyrði kurr í sínum hópi. Og hinn óleysti leikskólavandi er nú afsakaður með því að fólk hafi svarað vitlaust í skoðanakönnun árið 1994. Þörfin var víst meiri en fólk gaf upp. Já. Þegar allt kemur til alls er víst ekki svo gott að stjórna samkvæmt skoðanakönnunum. Eða eiga leiðtogar að vera í eilífu lýðtogi?

Síðan þessi orð voru skrifuð hefur það eitt bæst við feril umrædds leiðtoga, að hún hljóp frá loforðum sínum og skuldbindingum í Reykjavíkurborg. Og ástæðan var aðeins ein, það hafði verið gerð ein skoðanakönnun sem gaf til kynna að Samfylkingin gæti grætt á því. Og þá var hlaupið til.

Og Illugi Jökulsson mætir í sjónvarp og fullyrðir eins og sá sem valdið hefur, að enginn geti einu sinni efast um leiðtogahæfileika þessarar konu.