Menn birta hugleiðingar sínar hér og hvar. Í nýjasta hefti tímaritsins Sjónvarpshandbókarinnar er til dæmis heilsíðugrein sem nefnist því snarpa nafni „Grunnskólakerfið þarf að taka mið af aðstæðum foreldra“. Í greininni er því sem sagt haldið fram, að grunnskólakerfið sé ekki nægilega lagað eftir því sem foreldrum nemenda hentar best heldur sé það enn miðað við að nemendum sé gefið langt sumarfrí svo þeir komist út í sveit til að vinna við „sauðburð, heyskap, réttir og hvað þetta nú heitir allt.“. Greinarhöfundur segir að þessi háttur sé úreltur því frá því þessi atriði hafi skipt máli hafi nefnilega „margt gerst, s.s. iðnbylting, upplýsinga bylting, þéttbýlismyndun og almennar breytingar á lífsháttum fólks“.
Og greinarhöfundur vill að sumarfrí grunnskólanna verði stytt. Og ástæðan, hver ætli hún sé? Hún er ekki sú að gott væri ef skólaganga nemenda tæki færri ár eða að nauðsynlegt sé að nemendum sé kennt meira námsefni. Nei, ástæðan er sú að foreldrar þurfa að koma börnunum í pössun. „Á meðan skólinn er ekki að taka mið af þörfum foreldra neyðast foreldrar til þess að leita annarra leiða til að hafa ofan af fyrir börnum sínum meðan þeir eru að vinna“ segir í greininni og er auðheyrt að greinarhöfundur telur það skyldu hins opinbera að stytta börnum stundir meðan foreldrarnir eru í vinnunni eða annars staðar.
Þetta er svo sem ekki alveg nýtilkomin krafa. Undanfarin ár hefur þeim stöðugt vaxið fiskur um hrygg sem segja að það sé skylda skattgreiðenda að annast barnagæslu fyrir fólk. „Einsetinn skóli“ og „samfelldur skóladagur“ eru hugtök sem skyndilega eru mikið notuð og eru liður í baráttu fyrir því að hið opinbera geymi börn fyrir fólk allan daginn. Og sú barnagæsla kostar stórfé sem hið opinbera þarf svo að fá aftur með því að skattleggja fólk sem þá þarf jafnvel að vinna lengri vinnudag til að endar nái saman. Ef hið opinbera hætti að reka barnageymslur fyrir fólk en ekkert annað breyttist, þá er ekki að efa að ýmsir hefðu ekki tök á því að greiða fyrir dvöl barna sinna á einkareknum leikskólum. En ef dæmið er hugsað lengra þá sjá flestir að ef hið opinbera dregur úr umsvifum sínum og útgjöldum þá mun það einnig draga úr álögum sínum á borgarana og atvinnufyrirtækin og það myndi skila sér í betri lífskjörum. Og þá hefðu margir efni á ýmsu því sem þeir geta ekki veitt sér nú.
Og með auknu frelsi í skólamálum – og það gæti orðið án þess að hið opinbera hætti að greiða fyrir skólagöngu barna, svo sem ef tekið yrði upp svo kallað ávísanakerfi – þá er ekki að efa að fjölmargir einkaskólar legðu áherslu á að koma til móts við óskir þeirra foreldra sem vildu að börn þeirra dveldu sem lengst í skólanum. Einkafyrirtæki sem eiga í samkeppni eru líkleg til að reyna að „taka mið af aðstæðum“ viðskiptavina sinna. Opinber fyrirtæki, sem ganga að öruggum fjárveitingum og öruggum viðskiptavinum vísum, þau geta sem hægast miðað allt sitt skipulag við aðstæður frá því fyrir „iðnbyltingu, upplýsingabyltingu og þéttbýlismyndun“.