Helgarsprokið 19. ágúst 2001

231. tbl. 5. árg.

Svonefnd umhverfismál eru mál æsinga, upphrópana, þverstæðna en þó aðallega fjarstæðna. Þegar umhverfismál eru annars vegar er oft nóg að segja bara eitthvað. Sá sem talar lengst og mest um umhverfismál er mesti umhverfisvinurinn. Það skiptir litlu hvað hann segir svo lengi sem menn gæta sín á því að segja að „náttúran eigi að njóta vafans“ og að „stefna beri að sjálfbærri þróun“. Það eru umbúðirnar en ekki innihaldið sem skipta mestu í umhverfismálaumræðunni.

Nú er til dæmis afar vinsælt að gefa út „skýrslu frá starfshópi“ um hvaðeina er lýtur að umhverfismálum. Það er í samræmi við annað froðusnakk um umhverfismál að nefnd getur ekki heitið nefnd heldur starfshópur. Nýlega kom til dæmis út skýrsla starfshóps samgönguráðuneytis og vegagerðar um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þar kemur nú sitt hvað forvitnilegt fram. Í skýrslunni segir að til dæmis: „Ýmislegt bendir til þess að losun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð á Íslandi sé í sögulegu hámarki um þessar mundir og muni lítt vaxa úr þessu. Ástæða er til að ætla að á næstu árum muni fara að draga úr henni aftur vegna þess að meðaleldsneytisnotkun bifreiða mun væntanlega minnka hraðar en sem nemur vexti heildarumferðar á landinu.“ Þetta kemur ekki á óvart enda keppa allir að því að minnka orkukostnað sinn.

En það sem er einkum athyglisvert við skýrslu starfshópsins eru tillögur hans sem ganga þvert á nýja stefnu Alþingis og umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í sitt hvoru málinu. Fyrra málið og það sem gengur þvert gegn nýlegri stefnu Alþingis um skattlagningu bíla kemur ef til vill meira á óvart þar sem samgönguráðherra er síðast þegar fréttist í meirihluta á Alþingi, meira að segja í þeim sama meirihluta og samþykkti stefnuna. Fyrir rúmu ári voru skattar á bíla með öflugar vélar lækkaðir nokkuð með þeim ágætu rökum að ekki eigi að stýra neyslu fólks og skattar af þessu tagi bitni ekki aðeins á þeim sem borga þá heldur einnig á þeim sem geta ekki fengið sér vel búinn og öruggan bíl vegna hárra skatta. Í þeim flokki munu til dæmis vera fjölskyldur með mörg börn sem þurfa á slíkum bílum að halda. Þessir bílar eru auk þess að öðru jöfnu öruggari en verr búnir bílar. Með skattbreytingunni var vörugjaldsflokkum fækkað í tvo, 30 og 45%, en flokkarnir voru áður fleiri og vörugjaldið hærra. En starfshópur samgönguráðuneytisins og vegagerðarinnar lætur þessi rök sem vind um eyru þjóta og leggur til: „Gjaldheimta á bifreiðum verði endurskoðuð. Mörkuð verði sú stefna að hækka verð orkufrekra bifreiða en lækka verð þeirra sparneytnari.“ Það einkennilegasta við þennan málflutning er að hann er rökstuddur með „breyttum ástæðum“ m.a. tilkomu Kyoto-bókunarinnar. En Kyoto bókunin var gerð árið 1997 og skattbreytingin var gerð í fyrra. Það eru því engar breyttar aðstæður sem réttlæta viðsnúning í þessu máli. En ef til vill hefur starfshópurinn haft kjörorð umhverfisverndarsinna um að „náttúran eigi að njóta vafans“ sem forsendu fyrir öllu starfi sínu. Ef tillögur starfshópsins ná fram að ganga mun öryggi í umferðinni víkja fyrir vafanum um náttúruna.

Í sumar samþykkti meirihluti umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur tillögu þess efnis að vinna að skattlagningu nagladekkja. Ástæða, eða öllu heldur yfirvarp, nefndarinnar er svonefnd svifryksmengun í borginni. Menn vita lítið sem ekkert um uppruna þessa svifryks. Það hafa verið gerðar mælingar á styrk svifryksins við mót Miklubrautar og Grensássvegar og við Miklatorg en engar rannsóknir hafa verið gerðar á uppruna þess. Menn vita með öðrum orðum ekki að hve stórum hluta rykið á upptök sín í uppspændu malbiki, hvað er selta, hvað er útblástur, hvað er einfaldlega moldrok frá náttúrunnar hendi, hve stór hluti kemur frá öðrum óhreinindum sem falla á göturnar m.a. frá jarðvegsvélum og vörubílum. Engu að síður vill meirihluti nefndarinnar æða af stað með skattheimtu til að draga úr svifryksmengun. Hér á maðurinn enn og aftur að gjalda vafans. Ef til vill gæti bætt hreinsun gatna gert margfalt meira gagn en þessi tilraun til að úthýsa nagladekkjum. Menn vita það einfaldlega ekki. Það er reyndar rétt að geta þess að svo miklar sveiflur eru í mælingum á styrk svifryks milli ára að útlokað er að slá nokkru föstu um það hvort þessi mengun er að vaxa eða minnka og hvort yfirleitt þarf að grípa til einhverra aðgerða. En vilji nefndarinnar er svo sem skýr þótt hún hafi engar forsendur til að grípa til aðgerða: hún vill draga úr svifryksmengun.

Nú er það alkunn staðreynd að í útblæstri diesel bíla er mun meira svifryk en í útblæstri bensínbíla. Þegar áhyggjur umhverfis- og heilbrigðisnefndar borgarinnar af svifryksmengun eru hafðar í huga kemur það því á óvart að í tillögum starfshóps samgönguráðherra og vegagerðarinnar er lagt til að stjórnvöld beiti sér fyrir fjölgun dieselbíla á kostnað bensínbíla. Það er mun minni svifryksmengun í útblæstri bensínbíla en dieselbíla.

Þótt hér stangist hvað á annars horn og vafi leiki á um réttmæti flestra tillagna eru auðvitað allir að vinna í þágu umhverfisins. Enda er gott að njóta vafans.