Miðvikudagur 20. september 2000

264. tbl. 4. árg.

Á forsíðu Dags í gær mátti lesa í fyrirsögn: „Lækkun skatta hafnað“. Í meðfylgjandi frétt sagði svo: „Stjórnmálamenn hafna almennt hugmynd Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra um skattalækkun til íslenskra fyrirtækja.“ Við nánari lestur kemur í ljós að blaðamaður Dags leitaði álits þriggja stjórnmálamanna og dregur af því þá ályktuna að skattalækkun sé „almennt hafnað“.

Og hvaða þrír eru það nú sem tala fyrir stjórnmálamenn almennt? Væntanlega mætti búast við fulltrúa stærsta stjórnmálaflokksins á Alþingi í þeim hópi ef almenni hópurinn er á annað borð til. Jafnvel mætti gera ráð fyrir því að þar væri þingmaður af höfuðborgarsvæðinu. Einar Már Sigurðsson þingmaður Samfylkingar á Austurlandi telur það eins og að kasta olíu á eld að lækka skatta á fyrirtækin. Steingrímur J. Sigfússon þingmaður vinstri-grænna af Norðurlandi eystra telur þetta sömuleiðis fráleita hugmynd. Jón Kristjánsson þingmaður Framsóknarflokksins af Austurlandi segir hins vegar að fyrst þurfi að ná þenslunni og viðskiptahallanum niður og sér þyki þetta því ekki tímabær umræða. Þar hafa menn viðhorf stjórnmálamanna „almennt“. Þ.e.a.s. í þeim heimi sem blaðamaður Dags lifir og hrærist í.

En þessi viðbrögð Einars og Steingríms undirstrika enn frekar hve nauðsynlegt það er að lækka skatta fram að næstu kosningum. Skattalækkun mun í fyrsta lagi draga úr líkum á því að þeir komist til valda. Komist þeir til valda án þess að skattar hafi verið lækkaðir verður efnt til veislu á kostnað rekstrarafgangsins á skuldlitlum ríkisjóði. Án verulegrar skattalækkunar verður skuldastaða ríkissjóðs orðin svo góð eftir næstu kosningar að vinstri stjórnin getur órög tekið lán til að fjármagna frekari veisluhöld. Það eina sem getur hugsanlega fengið þessa vinstri menn til hugleiða að draga úr eyðslunni á annarra manna fé er hæfilega skuldsettur ríkissjóður án tekjuafgangs. Skuldum ríkissjóðs var ekki safnað á einni nóttu og ekkert sem segir að greiða þurfi þær á einni nóttu.