Í sjónvarpsþættinum Silfur Egils sem hóf göngu sína á ný á Skjá 1 um helgina voru svonefnd Evrópumál rædd. Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur vildi útskýra það fyrir hægrimönnum um hvað Evrópusambandið snýst og sagði: „Evrópusambandið er byggt upp til að koma á viðskiptafrelsi og til að losna við þau höft sem liggja á milli þessara þjóða sem byggja þessa álfu og þetta byggir á grundvelli um frelsi í vörum þjónustu, viðskiptum og þess háttar.“
Nokkrum mínútum síðar sagði sami Eiríkur: „Það eru stórir hlutar í hagkerfinu sem eru lokaðir fyrir þessum stærsta markaði okkar [ESB]. Við erum að tala um allt landbúnaðarkerfið, hluta af sjávarútveginum, það eru allt að 20% tollum á unnum sjávarafurðum frá Íslandi sem gerir það að verkum að við þurfum að flytja út hráefni í staðinn fyrir fullunna vöru og svo mætti lengi telja.“
Voru það Íslendingar sem báðu um tolla á fiskinn og aðrar viðskiptahindranir ESB sem Eiríkur segist geta talið upp í löngu máli? Láir svo einhver hægrimönnum þótt þeir séu tregir til að skilja svona útskýringar?
„Mér finnst mjög ólíklegt að við getum gengið inn í Evrópusambandið vegna fiskveiðistjórnunar málanna. Sjávarútvegurinn er svo stór þáttur hjá okkur að við getum ekki tekið neina áhættu með hann inn í sameiginlega fiskveiðistefnu ES. Þá erum við í þeirri stöðu að vera fyrir utan ES, sem er vissulega sérstaða en hafa samt EES samninginn sem hefur reynst okkur vel. Næsta skrefið hjá Evrópusambandinu er samræmd skattastefna. Hún mun örugglega verða þannig að hún verður samræmd upp á við en ekki niður til þeirra sem eru lægstir. Þá um leið höfum við möguleika á að nota afgang ríkissjóðs, svo fremi sem hann verður viðvarandi, til þess að lækka skatta á fyrirtækin og gera okkur þá um leið að einskonar miðstöð nýja hagkerfisins með umhverfi hátækni og hátt menntunarstig en lágt skattastig,“ var haft eftir Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra á Vísi í gær. Það er vafalaust rétt hjá Árna að Íslendingar standa frammi fyrir einstöku tækifæri til að marka sér sérstöðu í Evrópu sem land með lága skatta á fyrirtæki.