Umhverfisverndarsinnar eru ekki ánægðir með útgáfu á bókinni Hið sanna ástand heimsins eftir Björn Lomborg. Bókin er nefnilega full af staðreyndum um ýmsa þætti umhverfismála og hentar því ekki þeim sem vilja telja fólki trú um að ástand umhverfisins fari sífellt versnandi, en það er ýmist liður í alþjóðlegri fjárplógsstarfsemi umhverfisverndarsamtaka eða til að afla fylgis við stjórnmálaflokka. Einn þeirra sem veiðir atkvæði út á hryllingssögur af ástandi umhverfisins er Steingrímur J. Sigfússon. Hann ritaði grein í Morgunblaðið í síðasta mánuði þar sem hann beitti hinum hefðbundna málflutningi umhverfisverndarsinna til að draga úr trúverðugleika bókarinnar. Um þá grein var fjallað hér í Vef-Þjóðviljanum fyrir nokkru. Björn Lomborg svaraði svo fyrir sig í Morgunblaðinu á föstudaginn var og eftir lestur þeirrar greinar þarf enginn að efast um að Steingrímur sver sig í ætt við umhverfisverndarsinna í öðrum löndum.
En umhverfisverndarsinnar beita ekki aðeins vafasömum málflutningi heldur víla þeir ekki fyrir sér að vinna skemmdarverk á eignum fólks og stefna mannslífum í hættu til að vekja athygli á málstað sínum og ekki síður fjáröflun. Íslendingar fengu að kynnast því þegar hvalbátum var sökkt fyrir nokkrum árum. Nýlega lokuðu íslenskir umhverfisverndarsinnar svo brú upp á hálendið til að árétta „málefnalega baráttu“ sína. Sú aðgerð átti víst að tryggja að allir gætu notið hinna ósnortnu víðerna handan brúarinnar. Reglulega berast svo fréttamyndir af skrílslátum umhverfisverndarsinna í erlendum stórborgum þar sem þeir „minna á sig“ með því að leggja veitingastaði í rúst og grýta lögregluna.
Og umhverfisverndarsinnar kunna ýmislegt fyrir sér þegar kemur að skemmdarverkastarfsemi. Um 17 þúsund vísindamenn í Bandaríkjunum hafa ritað undir áskorun til stjórnvalda í Bandaríkjunum um að hafna Kyoto bókuninni um takmarkanir á útblæstri gróðurhúsalofttegunda þar sem hún sé byggð á hæpnum vísindalegum forsendum. Þessu gátu umhverfisverndarsinnar ekki unað og leituðu logandi ljósi að galla á undirskriftarsöfnuninni. Þegar þeir rákust á nafn Perry Masons á listanum var ekki að sökum að spyrja. Því var lekið í fjölmiðla að undirskriftasöfnunin væri tómt svindl þar sem sjónvarpsmyndahetjan Perry Mason hefði skrifað undir. Ekki var hirt um að þá staðreynd að Perry Mason doktor í efnafræði hafði skrifað sig á listann. Þegar þetta var rekið ofan í umhverfisverndarsinna reyndu þeir að koma nöfnum ýmissa stórstjarna úr kvikmyndaheiminum inn á listann til þess að draga úr trúverðugleika hans en þau nöfn voru strikuð út af listanum af aðstandendum söfnunarinnar.
Á dögunum voru hvorki fleiri né færri en 12 merkir einstaklingar gerðir að heiðursdoktorum við Háskóla Íslands. Allir munu þeir vera vel að heiðrinum komnir, svo sem kanadíski geimfarinn Bjarni Tryggvason og jafnvel enn frekar íslenski leikhúsfræðingurinn og fyrrverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, sem eru nú heiðursdoktorar við verkfræðideild Háskóla Íslands. Það er því eðlilegt að samfagna öllum nýju heiðursdoktorunum og ljóst að nú er annað uppi á teningnum en var á þeim tíma þegar prófessor Jón Helgason orti kvæði sitt, Við erlenda háskóla:
Við erlenda háskóla er ýmislegt garf
og erill sem rósemd vill banna,
um þjóðanna minjar og menningararf
þeir margs konar vitneskju sanna;
við háskóla Íslands er enginn sem þarf
svo örðugar brautir að kanna,
því hann hefur kjörið hið háleita starf
að hressa upp á nafnbætur manna.