Í aprílhefti tímaritsins Reason er rætt við jarðræktarfræðinginn Norman Borlaug sem hlaut friðarverðlaun Nobels árið 1970. Reason segir raunar að Borlaug hafi bjargað fleiri mannslífum í veraldarsögunni en nokkur annar. Borlaug sem er orðinn 86 ára og kennir enn við Texas A&M háskóla er nefnilega nefndur faðir grænu byltingarinnar; hinna snöggu umskipta í landbúnaði á sjöunda áratugnum þegar framleiðni jókst með ævintýralegum hætti með kynbótum á helstu korntegundum.
Reason spyr Borlaug meðal margs annars um lífrænan landbúnað og þá fullyrðingu margra að hann sé betri fyrir heilsu fólks og umhverfið. Og Borlaug svarar: „Þetta er fráleitt. Þótt við nýttum allan lífrænan úrgang, húsdýraáburð, lífrænt sorp frá manninum og rotnandi plöntuleifar, til að bæta jarðveg væri ekki mögulegt að fæða meira en 4 milljarða manna. Auk þess myndi lífrænn landbúnaður kalla á aukið landrými og við yrðum að ryðja margar milljónir ekra af skógi til þess. Við notum um það bil 80 milljónir tonna af köfnunarefnisáburði ár ári. Ef við ætlum að framleiða þetta magn með lífrænum hætti þurfum við 5 til 6 milljarða nautgripa til að fá nægan húsdýraáburð. Hvað ætli við þyrftum eiginlega að fórna miklu landi til að fæða allar þessar skepnur? Þetta stenst auðvitað ekki.“
Og Borlaug bætir við: „Ef fólk vill endilega trúa því að lífrænt ræktaðar afurðir séu bætiefnaríkari getur það gert það mín vegna. Það eru hins vegar engar rannsóknir sem styðja þá fullyrðingu að lífrænar afurðir séu hollari. Planta gerir engan greinarmun á því hvort nítrat jón kemur úr tilbúnum áburði eða lífrænum úrgangi. Ef einhverjir neytendur trúa því að það sé betra fyrir heilsuna að kaupa lífrænar afurðir bið ég þeim Guðs blessunar. Þeir mega kaupa þær og borga meira, þeir hafa fullt frelsi til þess. En látið það vera að segja öðrum að við eigum möguleika á því að fæða mannkynið án tilbúins áburðar. Að öðrum kosti fer gamanið að kárna.“