Fimmtudagur 11. maí 2000

132. tbl. 4. árg.

Afskipti ríkisins af atvinnurekstri eru mjög mikil hér á landi. Þrátt fyrir að þokast hafi í rétta átt á mörgum sviðum atvinnulífsins, t.d. í rekstri fjármálastofnana, er ríkið jafnt og þétt að auka afskipti sín á öðrum sviðum. Þannig sæta verðbréfaviðskipti sífellt strangari starfsskilyrðum, ekki frá þeim sem hætta fé sínu til ávöxtunar í slíkum viðskiptum, heldur frá ríkisvaldinu sem sjálft á í samkeppni um sparifé við aðra ávöxtunarkosti á markaði. Hið nýjasta í þessari „neytendavernd“ ríkisins er að framvegis verði allir starfsmenn sem svara í síma fyrirtækja sem sinna verðbréfamiðlun að standast próf, á vegum ríkisins, í verðbréfamiðlun. Samkvæmt núgildandi löggjöf nær þessi kvöð eingöngu til framkvæmdastjóra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og daglegra stjórnenda rekstrarfélaga verðbréfasjóða.

Það er í sjálfu sér ankannalegt að ríkið skuli telja sig umkomið til að standa fyrir einhvers konar ríkismælingu á því hverjir séu vel fallnir til þess að selja verðbréf og hverjir ekki. Hins vegar valda þessi afskipti, rétt eins og önnur tilviljanakennd íhlutun ríkisvaldsins í rekstur á markaði, því að þrengra verður um vik fyrir fyrirtæki í greininni að velja sér starfsfólk. Að auki þurfa fyrirtækin að kosta til tímafreku og dýru námskeiði fyrir sérhvern starfsmann áður en starfskraftar hans teljast þóknanlegir ríkinu. Þá er erfitt að koma auga á hvernig hin ríkisreknu námskeiðshöld taka fram þeirri menntun sem fyrirtækin sjálf telja rétt að starfsmenn þeirra hafi aflað sér. Þessar aðgerðir kristallast svo í því að þeir sem koma til með að bera kostnaðinn af þessum afskiptum ríkisvaldsins eru einmitt þeir neytendur sem lagt var upp með að vernda.

Viðvörunaróp úr öllum áttum – en ríkisstjórnin gerir ekkert“ sagði Rannveig Sigurðardóttir, starfsmaður ASÍ í gær um stöðu efnahagsmála, viðskiptahalla og verðbólgu. Þetta er furðuleg yfirlýsing og alröng. Í fjármálaráðuneytinu gera menn sitt af hverju. Þar á bæ stóðu menn í því í vikunni að keyra í gegnum Alþingi frumvarp um milljarða króna aukin ríkisútgjöld og stórfelld launuð frí hátekjufólks frá störfum. Með tilheyrandi þensluaukningu.

Það er ekki hægt að segja að sá sem keyrir fæðingarorlofsfrumvarpið í gegn „geri ekki neitt“. En gott ef satt væri.