Þriðjudagur 1. apríl 1997

91. tbl. 1. árg.

Samkeppnisstofnun, lét til sín taka…
á dögunum. Stofnunin ákvað að ,,banna nokkrum fyrirtækjum að auglýsa vöru sína með ákveðnum hætti. Verslun ein hafði t.d. auglýst að hún byði upp á ,,mest seldu hljómtæki á Íslandi en þegar árvökulir starfsmenn ríkisins athuguðu málið gat verslunin ekki sannað þessa fullyrðingu. Nú finnst kannske einhverjum að hið besta mál sé að lækkaður sé rostinn í þessum fyrirtækjum, sem auglýsi alls kyns hluti með stóryrðum sem þau geti svo ekki staðið við. Hér er þó margt að athuga. Hvers vegna á ríkisvaldið að taka að sér að leiðrétta ummæli manna úti í bæ? Hvernig getur ríkisvaldið ,,bannað tilteknar auglýsingar? Auðvitað eiga menn ekki að auglýsa annað en þeir geta staðið við. En ekki ber að snúa sönnunarbyrðinni við hér, fremur en annars staðar. Ríkisvaldið á engra hagsmuna að gæta í þessu máli. Viðskiptavinurinn, maðurinn sem vill endilega kaupa ,,mest seldu hljómtæki á Íslandi, hver sem þau eru, getur sjálfur spurt auglýsandann hvað hann hafi fyrir sér í fullyrðingum sínum. Líki honum ekki svörin tekur hann auglýsinguna ekki trúanlega og fer sína leið. Komist hann að því, eftir að kaup eru gerð, að rangt hafi verið auglýst, getur hann stefnt versluninni fyrir rangar upplýsingar og krafist riftunar eða skaðabóta samkvæmt almennum reglur um brostnar forsendur.

,,Af hverju er ég sviptur þeim einföldu mannréttindum…
að fá að gera hagkvæm innkaup? Hvaðan fá stjórnmálamenn leyfi til að banna mér að gera hagkvæm innkaup? Það er mergurinn málsins. Það er verið að setja höft á möguleika mína. Landbúnaðarráðherra, hverju sinni, hefur komið í stað dönsku einokunaryfirvaldanna, hann er óvinur alþýðunnar númer eitt, sagði Jón Magnússon varaformaður Neytendasamtakanna í viðtali við Alþýðublaðið fyrir páska.
Tilefni viðtalsins er að nú fara verndartollar á innflutt grænmeti að gera vart við sig þar sem íslensk framleiðsla er að koma á markað. Fyrirsjáanleg verðhækkun hækkar lánskjaravísitöluna sem flest lán eru tengd. Um þetta segir Jón: ,,Þetta ofurverð hækkar líka lán fólksins í landinu, þau rjúka upp vegna þess að einhver sveppabóndi á Flúðum situr einn að framleiðslu og sölu og vegna þess að paprikubóndi á Varmalandi ræktar parprikur.