Miðvikudagur 2. apríl 1997

92. tbl. 1. árg.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, var á beininu…
hjá Hrafni Jökulssyni í Dagsljósi í gærkvöldi. Hrafn var greinilega vel undir þáttinn búinn og gerði harða hríð að borgarstjóranum eða öllu heldur að kosningaloforðum R-listans sem voru æði mörg eins og menn muna. Ýmislegt virðist skorta á að þessi loforð hafi verið efnd. R-listinn lofaði að hækka ekki skatta en lagði á holræsagjald og hefur hækkað ýmis gjöld af einokunarstarfsemi á vegum borgarinnar. Má þar nefna gjöld fyrir rafmagn og heitt vatn. Eitt helsta loforð, og sennilega eitt af því sem R-listinn náði kosningu út á, var að atvinnuleysi í Reykjavík yrði útrýmt. Tölur benda til þess að atvinnulausum hafi fjölgað í Reykjavík frá valdatöku R- listans. Í veglegum kosningabæklingi R-listans fyrir síðustu kosningar sagði: ,,Reykjavíkurlistinn setur atvinnumálin á oddin. Með þeim mun hann standa og falla.

Ekkert bendir til að jarðeldsneyti,…
kol, olía og gas séu að ganga til þurrðar. Verð á þessum mikilvægu efnum hefur verið stöðugt undanfarna áratugi sem bendir ekki til að eftirspurn sé að aukast meira en framboð. Vinnanlegar birgðir olíu hafa undanfarna fjóra áratugi verið taldar duga í 30 – 40 ár. Þetta kemur ef til vill spánskt fyrir sjónir en þegar hugtakið vinnanlegar birgðir er skoðað er þetta ekki svo öfugsnúið. Vinnanlegar birgðir eru þær uppsprettur sem borgar sig að vinna miðað við núverandi verð og tækni. Ef verð hækkar aukast vinnanlegar birgðir og eins ef ný hagkvæm vinnslutækni kemur fram á sjónarsviðið. Það þarf því ekki að koma á óvart þótt vinnanlegar birgðir hafi staðið í stað undanfarna áratugi og muni vafalaust gera það áfram. Nýir eldsneytismöguleikar (t.d. vetni) bíða svo í röðum eftir því að geta keppt við olíuna. Enn eru þessir möguleikar þó langt frá því að vera jafnhagkvæmir og olía.