Mánudagur 31. mars 1997

90. tbl. 1. árg.

Ísland er aftarlega á merinni…
í einkavæðingu. Minnugir þess hvernig kjósendur þökkuðu fyrir skref í átt til einkavæðingar Strætisvagna Reykjavíkur í síðustu borgarstjórnarkosningunum hafa stjórnmálamenn að mestu haldið að sér höndum. En bæði kjósendur og stjórnmálamenn ættu að taka sér Breta til fyrirmyndar. Íhaldsflokkurinn hefur unnið hverja kosninguna á fætur annarri með því að setja einkavæðingu á oddinn og er nú svo komið að nánast allt hefur verið einkavætt, svo sem síma-, rafmagns-, gas- og vatnsþjónusta. Og þótt sá flokkur standi illa í skoðanakönnunum nú grípur hann ekki til þess að lofa öllu fyrir ekkert (sem endar ævinlega í útgjöldum fyrir skattgreiðendur), heldur ætlar að halda áfram á einkavæðingarbrautinni ef svo ólíklega vill til að hann hefur sigur. Eitt af því fáa sem eftir er og nú á að einkavæða er járnbrautakerfið undir Lundúnaborg. Að mati The Economist er þetta heppileg aðgerð ef hún er rétt framkvæmd og miðað við hvernig áður hefur tekist til um sambærilegar einkavæðingar er ástæða til að ætla að svo verði.

Vinstrimenn á Íslandi vilja kannske ekki…
taka sér breska íhaldsmenn til fyrirmyndar, en þeir ættu þó að minnsta kosti að geta litið til Verkamannaflokksins og lært af honum. Á þeim bæ er ekki ætlunin að snúa til baka með það sem þegar hefur verið einkavætt þótt einkavæðingunni hafi áður verið mótmælt. Ætlunin er ekki heldur að gera grundvallarbreytingar á löggjöfinni um verkalýðshreyfinguna sem Thatcher kom í gegn þrátt fyrir hörð mótmæli vinstri manna á níunda áratugnum. Samkvæmt Sky-fréttastofunni segir Tony Blair, leiðtogi Verkamannaflokksins, að á Bretlandi verði áfram ströngustu reglur í Evrópu í þessum efnum. Blair ætlar ekki heldur að auka útgjöld og hækka skatta, en segist vilja breyta forgangsröðun. Og þótt hægri mönnum finnist þeir ekki hafa sérstaka ástæðu til að trúa því að félagshyggjumennirnir meini hvert orð eða geti staðið við það er samt ástæða til að fagna þeirri miklu breytingu sem orðið hefur á stefnu félagshyggjumanna í Bretlandi. Hér á landi eru félagshyggjumenn því miður að minnsta kosti tíu árum á eftir tímanum.