Ítarlegt viðtal er við Kjartan Gunnarsson, formann stjórnar…
Landsbanka Íslands í Viðskiptablaðinu í þessari viku. Í viðtalinu segir Kjartan: ,,Ég er líka þeirrar skoðunar að dreifa eigi hluta af hlutafé ríkisbankanna beint til almennings. Mér finnst að það skipti miklu máli að sem flestir Íslendingar verði virkir þátttakendur í atvinnulífinu.“
Áætlað verðmæti Landbankans og Búnaðarbankans er um 10 milljarðar króna. Ef 25% hlutafjár bankanna væru send almenningi kæmu um 10 þúsund krónur í hlut hvers Íslendings. Þetta mætti einnig hugsa sér með Póst og síma. Þeir sem eru mest á móti einkavæðingu þessara fyrirtækja segja jafnan að þjóðin þurfi að eiga fyrirtækin af þessari gerð. En er það ekki einmitt besta leiðin til að tryggja hlut þjóðarinnar í fyrirtækjunum að hún fái hlutabréf í þeim?
Í Viðskiptablaðinu er einnig rætt við Guðmund Árna Stefánsson…
um Brunabótafélag Íslands. Guðmundur er andvígur því að eigendur Brunabótafélagsins fái eign sína endurgreidda og vill að hún falli sveitarfélögunum í skaut þegar eigendurnir deyja. Þar segir Guðmundur:,,Sveitarfélögin eru eitthvað sem varanlegt er en við guðs börn erum auðvitað dauðleg og sú óvirka inneign sem menn kunna að eiga hjá Brunabótafélagi Íslands rennur til þess sveitarfélags sem hefur alið önn fyrir þessum einstaklingum.” Ætli ræningjar almennt viti af þessum ,,rökstuðningi“ fyrir því að fólk sé rænt eigum sínum? Láttu mig hafa veskið þitt góði og blessaður vertu ekki að kæra mig, þú ert hvort sem er dauðlegur!