Vefþjóðviljinn 176. tbl. 18. árg.
Í gær birtist áfangaskýrsla stjórnarskrárnefndar, sem skipuð hefur verið til að friða þá sem mega ekki til þess hugsa að stjórnarskráin komist ósködduð frá bankahruninu. Auðvitað tókst ríkisstjórninni ekki að stöðva það feigðarflan, frekar en margt annað sem vinstristjórnin hóf. Sumir virðast greinilega halda að stjórnarskrá sé eins og landslög, að henni eigi að breyta af og til eftir pólitískum vindum og tískukenningum. Svo er hins vegar alls ekki. Í stjórnarskrá á að skipa örfáum grundvallaratriðum sem einmitt eiga ekki að breytast eftir því hvernig vindar blása hverju sinni. Það eru almennu lögin sem má breyta af og til. Allt öðru máli gildir um stjórnarskrá og það hefðu stjórnarflokkanir átt að segja strax í upphafi kjörtímabilsins.
Eitt af því sem nefndarmenn ræða nú er sú löngun einhverra að sett verði í stjórnarskrána ákvæði sem myndi heimila framsal íslensks ríkisvalds til starfsmanna alþjóðlegra stofnana. Fyrr á þessu ári lét Andríki fyrirtækið MMR kanna viðhorf landsmanna til slíkrar hugmyndar og fengust mjög afgerandi svör.
Í könnuninni var spurt: Hversu hlynntur eða andvígur ert þú því, að stjórnarskrá Íslands verði breytt þannig að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana?
Niðurstöðurnar voru mjög afgerandi, en 69,8% svarenda sögðust á móti því að þetta yrði gert. Hins vegar voru 14,3% hlynnt því. Stjórnarskrárnefnd og fréttamenn munu auðvitað ekkert gera með slíkt. Stjórnvöld munu ekki taka af skarið og því verður haldið áfram á þessari braut.