Fimmtudagur 26. júní 2014

Vefþjóðviljinn 177. tbl. 18. árg.

Öldungaráð Frakklands fylgist spennt með í sjónvarpssal enda ekki annað að heyra og sjá en að á HM í Brasilíu spili aðeins eitt lið.
Öldungaráð Frakklands fylgist spennt með í sjónvarpssal enda ekki annað að heyra og sjá en að á HM í Brasilíu spili aðeins eitt lið.

Vefþjóðviljinn hafði beina útsendingu franska sjónvarpsins TF1 fyrir augunum í gærkveldi þegar Frakkar mættu Ekvador í knattspyrnu í Brasilíu. Leikurinn hafði nánast enga þýðingu fyrir framgang franska liðsins og var einn hinn leiðinlegasti sem fram hefur farið í Suður-Ameríku.

Þrátt fyrir lítil tilþrif var þó vart minnst á önnur lið í keppninni, hvorki á meðan leik stóð né eftir að honum lauk, hvað þá sagt frá öðrum leikjum dagsins né sýnt frá þeim, jú nema nokkur sekúndubrot frá liði Nígeríu sem nýtur þess heiðurs að mæta Frökkum í næstu umferð.

Í settinu heima í Frakklandi sátu svo spekingar að spjalli og engu var líkara en að um væri að ræða útsendingu frá litlu þorpi sem skyndilega kæmist í heimsfréttirnar, slík var vanmetakenndin og sjálfhverfan. TF1 er vinsælasta sjónvarpsstöð Frakklands og reyndar Evrópu allrar.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan hafði svo þeim ófríðustu úr öldungaráði Frakklands verið raðað í kringum sjónvarpsmennina til að undirstrika víðsýni og hámenningu stórveldisins.