Miðvikudagur 5. janúar 2011

5. tbl. 15. árg.

Í fyrradag fjallaði Vefþjóðviljinn um þau ánægjulegu tíðindi að formaður Samfylkingarinnar, þeirrar stjórnmálahreyfingar sem mest hefur lagt á sig á síðustu árum til að skapa ósætti um íslenskan sjávarútveg, hafi í áramótaávarpi til landsmanna hvatt til þess að sátt næðist um auðlindir landsins. Ef að hugur fylgir máli þá eru þetta mjög jákvæð tíðindi, því væntanlega mun Samfylkingin fylgja áskorun formannsins eftir með því að láta af áróðri gegn sjávarútveginum og draga til baka allar tillögur sem myndu skaða hann stórkostlega.

Fleiri ávörp voru flutt um áramótin. Ólafur Ragnar Grímsson flutti ávarp og hvatti landsmenn til að draga úr stóryrðum og illmælgi. Það kom auðvitað ekki á óvart enda hafa Íslendingar fjörutíu ára reynslu af háttvísi Ólafs Ragnars, sem lengi hefur lagt gott til manna á farsælum ferli.

Það er rétt hjá Ólafi Ragnari, hvað sem mönnum finnst um hann að öðru leyti, að ástæða er til að opinber umræða batni. Illmælgin er eitt vandamálið. Hún hefur sjálfsagt lítil áhrif á fjöldann lengur, en hún er samt eins og spilliefni sem menn komast ekki alltaf hjá því að anda að sér, nema með því að forðast með öllu þann vettvang þar sem búast má við henni. Mjög algengt er að umræða á íslenskum umræðuvefjum leiðist út í illmælgi, stóryrði og rangar fullyrðingar, sem gera það vafalaust oft að verkum að venjulegt fólk lætur sig hverfa. Að mörgu leyti eru athugasemdavígvellirnir eins og vafasamar búllur sem slagsmálahundar leggja undir sig. Venjulegt fólk forðar sér en æsingamenn safnast á staðinn. Þarf ekki að hafa mörg orð um hversu mjög þeir spilla fyrir orðspori staðarins og þeirra sem í raun vilja vera þar til friðs.

Annað vandamál er á margan hátt hættulegra. Illmælgin má þó eiga það að hún leynir sér sjaldnast. Þegar menn saka aðra um landráð og þjófnað, undir dulnefnum, þá átta flestir sig á því hvers kyns málflutningur er á ferð. Skaðlegri er hins vegar ósanngirnin, misskilningurinn, ranghermið og órökstuddu fullyrðingarnar sem standa upp úr fólki, athugasemdalaust. Hvað eftir annað stendur slíkur straumur úr gestum í útvarps- og sjónvarpsþáttum og þá iðulega án þess að nokkur andmæli, úr bloggurum, stjórnmálamönnum og hinu og þessu fólki, sem ósjaldan er kynnt til leiks sem miklir sérfræðingar. Þegar svo hefur gengið árum saman, þá er ekki furða þó margir hafi fengið allskakka mynd af ýmsum hliðum þjóðlífsins.

Vissulega ættu menn að reyna að forðast illmælgina og ýta stóryrðaupphrópunum út á jaðarinn þar sem þau eiga frekar heima. En það er ekki síður áríðandi að leiðrétta rangfærslur og draga úr vægi ranghugmynda, ósanngirni og hlutdrægni, sem allt of mikið kveður að.