Þriðjudagur 4. janúar 2011

4. tbl. 15. árg.

E ftir nær tveggja áratuga streð ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks tókst að einfalda skattheimtu af fólksbílum örlítið þegar vörugjaldsflokkum var fækkað úr þremur í tvo fyrir nokkrum árum. Þessi breyting var eiginlega það eina sem stóð eftir af þeirri einföldun á skattkerfinu sem varð undanfarna áratugi. Á innan við tveimur árum var vinstristjórnin búin að flækja alla aðra skatta – og auðvitað hækka þá í leiðinni.

Skelfilegasta dæmið um þetta er að sjálfsögðu tekjuskattur einstaklinga. Fyrir tveimur árum gat hver sem er reiknað tekjuskattinn sinn út með einfaldri margföldun og frádrætti. Tekjur x skatthlutfall – persónufrádráttur.

Eftir að Steingrímur og Indriði hafa farið höndum um kerfið gengur þetta þannig fyrir sig: Takið fyrstu 210 þúsundin frá og margfaldið með ákveðnu hlutfalli. Geymið töluna. Takið svo næstu 470 þúsund og margfaldið með öðru hlutfalli. Geymið. Takið það sem eftir stendur og margfaldið með þriðja hlutfallinu. Geymið niðurstöðuna. Leggið nú allar tölurnar saman og dragið svo persónuafsláttinn frá. Ef menn hafa eytt í ákveðna hluti geta menn svo fengið frádrátt frá skattstofni. Áður gátu hjón látið skattleggja sig saman en nú þurfa þau að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að svo sé.

Og auðvitað gat vinstristjórnin ekki heldur horft upp á að hinn almenni maður gæti áttað sig á skattheimtu á fólksbíla með einföldum hætti. Gagnsæi var nú hennar helsta slagorð í upphafi. Því hefur meirihluti hennar á Alþingi fjölgað vörugjaldsþrepunum úr tveimur í tíu.

Í þessum nýja vörugjaldafrumskógi er ýmislegt forvitnilegt fyrir áhugamenn um norræna velferðarstjórn. Til dæmis mun þessi – áður – ódýri jepplingur af gerðinni Chevrolet Captiva hækka um svona eina milljón króna. Þá þarf venjulegt fólk ekki að láta freistast of honum framar.

Hins vegar mun þessi Porsche Cayenne Diesel lækka um svipaða fjárhæð. Allt fyrir norrænu velferðina.

Væntanlega mun þessi nýja skattlagning norrænu velferðarstjórnarinnar einnig hífa upp verð á þeim stóru bensínknúnum jeppum sem þegar eru í landinu þar sem þeir munu framvegis bera 65% vörugjöld og svo 25,5% virðisaukaskatt þar ofan á. Hvers vegar er ekki bara bannað berum orðum að flytja slíka bíla inn?