Helgarsprokið 10. október 2010

283. tbl. 14. árg.

Í vikunni varð nokkuð uppnám vegna hugmynda um að fækka sjúkrarúmum vítt og breitt um landið, svona hér um bil alls staðar nema í kjördæmi heilbrigðisráðherrans. Hvarvetna voru stóryrtir sveitarstjórnarmenn mættir til að andmæla þessum hugmyndum en þeir telja sig sjálfsagt hafa stöðu til að ráðleggja öðrum um opinberan rekstur, líkt og glæsileg fjárhagsstaða sveitarsjóða ber með sér.

Það er óhagganleg staðreynd að á stjórnarárum „nýfrjálshyggjunnar“ þandist hið opinbera út. Frá 2003 til 2009 hækkuðu útgjöld ríkisins um 41% að raunvirði. Aldrei í sögu landsins tók hið opinbera hærra hlutfall landsframleiðslunnar til sín en á árunum fyrir bankahrunið, þarna þegar nýfrjálshyggjan óð uppi. Og það þótt landsframleiðslan hafi aukist mjög á þessum árum. Þessar auknu tekjur voru of mikil freisting fyrir stjórnmálamennina. Þeir eyddu þeim einfaldlega. Þrátt fyrir þessa ofboðslegu eyðslu dundi látlaust á ríkisstjórnum þessara ára að ríkisstofnanir byggju við fjársvelti. Engin sparnaðartillaga náði fram að ganga án þess að vinstriflokkarnir gengju fyrst af göflunum og teldu vegið að rótum velferðarkerfisins.

Sem dæmi um hve geggjuð umræðan var á þessum árum má nefna að eftir áratuga langar tilraunir ríkisstjórna allra flokka til að leggja niður þá gjörsamlega óþörfu ríkisstofnun, Þjóðhagsstofnun, tókst það loks að einhverju leyti árið 2002 við skerandi væl stjórnarandstöðunnar. Að einhverju leyti segir Vefþjóðviljinn því ýmis verkefni Þjóðhagsstofnunar voru flutt til annarra ríkisstofnana. Síðan hefur vart liðið sú vika að örlög Þjóðhagstofnunar hafi ekki verið grátin af einhverjum spekingnum og alls kyns samsæriskenningar hengdar á málið. Því hefur jafnvel verið haldið fram að bankarnir hefðu verið betur reknir og ekki farið á hliðina ef landsmenn hefðu notið reiknikrafta ríkisstarfsmanna undir merkjum Þjóðhagsstofnunar, einmitt þar og hvergi annars staðar í ríkisbákninu.

Svona létu menn í sjálfu góðærinu þegar næga vinnu var að hafa og að öllu eðlilegu hefði átt að nýta tækifærið til að draga úr ríkisútgjöldum og fækka ríkisstarfsmönnum. En ekki mátti hrófla við nokkrum einasta hlut hjá ríkinu án þess að allt færi á annan endann. Vinstri grænir og Samfylkingin eiga stóran þátt í þessu. Flokkarnir andmæltu öllum sparnaðartillögum og komu ekki með neinar sjálfir. Þeir andmæltu jafnframt öllum tillögum til skattalækkana sem voru þó eina raunhæfa ráðið til að koma í veg fyrir útþenslu ríkisbáknsins. Það hefði svo sárlega þurft að skera fóðrið niður við skepnuna til að hún bætti ekki á sig. Vinstri menn hafa reyndar reiknað það út með aðstoð Stefáns Ólafssonar prófessors að skattbyrði hafi verið stóraukin á þessum árum. Bætist hin aukna skattbyrði þá við önnur sönnunargögn, líkt og stóraukin ríkisútgjöld, flóð reglugerða og fleiri eftirlitsstofnanir, því til stuðnings að hér hafi verið nýfrjálshyggja. Alveg óheft.

Því miður er Vefþjóðviljinn vantrúaður á að sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga eða skili þeim árangri sem lagt er upp með. Það er út af fyrir sig nógu erfitt að draga úr þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu þótt ekki bætist við að á sama tíma og loka á sjúkradeildum er verið opna rándýra tónlistarhöll, efna til ráðgefandi stjórnlagaþings fyrir mörg hundruð milljónir og þjóðfundar sem veitir stjórnlagaþinginu ráð, eyða þúsundum milljóna króna í aðildarviðræður við Evrópusambandið, setja upp fjölmiðlastofu og taka á fjárlögunum með kynjuðum hætti. Menntamálaráðherra stærði sig meira að segja af því í vikunni að ekki hefði verið skorin niður króna í útgjöldum íslenska ríkisins vegna kaupstefnu bókaútgefenda í Frankfurt.