T ímarit Máls og menningar kom út á dögunum. Í því er misgott efni, sumt áhugavert, annað mun síður. Einar Már Guðmundsson rithöfundur skrifar í heftið stutta grein sem hann nefnir Bankar og eldfjöll, og er um þjóðfélagsmál í sama anda og ýmis önnur skrif Einars Más frá síðustu misserum. Ekki er Vefþjóðviljinn alltaf sammála Einari Má um þau, en sumt þykir blaðinu skynsamlega hugsað hjá rithöfundinum. Ýmsir þeir sem gapa um íslensk þjóðmál nú á tímum virðast láta sér sanngirni í málflutningi og raunverulegan heiðarleika í léttu rúmi liggja. Ólíkur mörgum slíkum virðist Einar Már aldrei skrifa af vísvitandi ósanngirni heldur af því sem hann telur sjálfur rétt og sanngjarnt, eftir talsverða umhugsun en ekki skyndihugdettu. Slíkan texta er mönnum lítil vorkunn að lesa þótt þeir séu ekki alltaf sammála höfundinum. Og ekki spillir þegar höfundurinn er eins prýðilega ritfær og Einar Már Guðmundsson auðvitað er. Í grein sinni minnist Einar Már á eldgosið í Eyjafjallajökli sem hindraði flugferðir í einni heimsálfu og skildi milljónir ferðalanga eftir með angistarsvip, ónýtan farseðil og ekkert hótelpláss.
Það er ekkert flóknara en það, að á enskar bloggsíður er skrifað: „Fyrst stela þeir peningunum okkar með bankahruninu og svo spúa þeir yfir okkur ösku. Þessir víkingar – næst stela þeir konunum okkar!“ Cash rímar á móti Ash og Ash rímar á móti Cash. „We asked for cash, not ash!“ segja Bretarnir. Svona varpa stórbrotin tíðindi oft ljósi á kímnigáfu manni en hún er stundum bakhlið örvæntingar. Ætli það endi ekki með því að bresk stjórnvöld geri Íslendinga ábyrga fyrir öllum flugmiðum í Evrópu og sjálfsagt mun ríkisstjórnin veita ríkisábyrgð á þeim; og stjórnmálamenn okkar munu segja að það sé bara kurteisi að borga flugmiða, það komi sér vel fyrir okkur í alþjóðasamfélaginu, jafnvel þó okkur beri engin lagaleg skylda til að borga þá, þá höfum við alveg efni á því. Ég tala nú ekki um ef samið er um smá frest og ef greiðslan bjargar flugsamgöngum heimsins. |