Þriðjudagur 12. október 2010

285. tbl. 14. árg.

N ú hefur Alþjóða efnahagsráðið (WEF) kveðið upp úr um að Ísland sé það land í heiminum þar sem jafnrétti kynjanna sé mest og best. Og ekki í fyrsta sinn.

Ráðið styðst við fjóra jákvæða þætti í mælingu sinni, heilsu, menntun, stjórnmálaáhrif og efnahag. Reyndar má deila um það hvort telja eigi stjórnmálaáhrif á Íslandi undanfarin ár mönnum til tekna. Myndu ekki margir þátttakendur í stjórnmálum hér síðustu árin óska þess að þeir hefðu verið að gera eitthvað allt annað? Hvað þá aðalleikendur í efnahagslífinu?

Engir neikvæðir þættir eins og afbrot, fangelsisvist, fíkniefnaneysla og þannig hlutir eru teknir með í reikninginn en karlar „njóta“ þeirra í mun meira mæli en konur. Jákvæðum þáttum sem eru konum augljóslega í hag, eins og samveru með börnum, er einnig sleppt.

Hvað um það, svona mælistikur verða aldrei annað en vísbending. Hins vegar hljóta Íslendingar að velta því fyrir sér hvort þeir sem tróna á toppnum í þessum efnum ár eftir ár þurfi á sérstakri ríkisstofnun, Jafnréttisstofu, að halda. Að halda úti jafnréttisstofu á Íslandi er svolítið eins og bjóða sand til sölu í Yemen, sem setið hefur á botninum í þessari könnun undanfarin fimm ár.

Rekstur Jafnréttisstofu kostar 100 milljónir króna á ári. Þær milljónir eru ekki til í ríkissjóði, jafnvel ekki þótt búið sé að hækka alla skatta. Ef halda á rekstri Jafnréttisstofu áfram þarf að taka þessar hundrað milljónir að láni. Það er fráleitt.

Þeir sem hafa í alvöru áhyggjur af stöðu kvenna gætu kannski gert þá tillögu að Jafnréttisstofa verði lögð niður og ein milljón króna af þeim hundrað sem sparast verði send til að bæta stöðu kvenna í Yemen, svona þar sem slíkrar aðstoðar er raunverulega þörf og gæti jafnvel haft áhrif sem máli skipta.