Laugardagur 9. október 2010

282. tbl. 14. árg.

Í bókinni Superfreakonomics, sem er sjálfstætt framhald hinnar umtöluðu bókar Freakonomics sem kom út fyrir nokkrum árum, draga höfundar fram tölfræði um ýmsa þætti mannlífsins sem kann að koma á óvart. Þeir sýna meðal annars fram á að það er hættulegra að labba fullur heim en aka fullur, það er að segja fyrir drykkjumanninn.

Bókin inniheldur einnig þessa lýsingu

Þegar mannkynið steig sín fyrstu skref inn í nútímann fjölgaði mönnum gríðarlega. Mest fjölgun varð í borgum á borð við London, París, New York og Chicago. Í Bandaríkjunum fjölgaði um 30 milljónir manna í borgum á 19. öld. Helmingur fjölgunarinnar átti sér stað á síðustu tuttugu árum aldarinnar. Því fylgdu ýmis vandamál er svo stór hópur manna fór um og flutti nauðsynjar og varning milli staða. Samgöngurnar gáfu af sér aukagetu, sem hagfræðingar nefna neikvæð ytri áhrif, svo sem umferðarteppur, rándýrar tryggingar og banaslys. Uppskera sem að öðrum kosti hefði fætt svanga munna var stundum nýtt sem eldsneyti á helstu samgöngutækin. Að ógleymdri loftmenguninni og eitruðum úrgangi, sem stefndi bæði umhverfinu og heilsu fólks í hættu.

Hér er einkabílnum lýst ekki satt? Nei reyndar ekki. Hér er átt við hestinn.

Þessi fjölhæfi og öflugi vinnuþjarkur frá alda öðli var nýttur í ýmis verk í borgum. Hann var spenntur fyrir almenningsvagna og kerrur, látinn draga byggingarefni og vörur úr skipum og lestum á áfangastað ásamt því að knýja vélar á verkstæðum sem framleiddu húsgögn, reipi, bjór og fatnað. Ef dóttir þín veiktist flengdist læknir á staðinn á hesti. Við eldsvoða drógu hestar vatnsdælur á vettvang. Við upphaf 20. aldar voru um 200 þúsund hestar í New York, um það bil einn fyrir hverjar sautján manneskjur. Og vandamálin sem fylgdu þeim voru ekkert grín.

Fátt annað en hestvagnar komst fyrir á götum og strætum. Þegar hestur gafst upp var hann oft aflífaður á staðnum. Það orsakaði frekari tafir á annarri umferð. Tryggingar margra hesta kváðu á um að þriðji aðili yrði að aflífa dýrin. Þetta ákvæði gerði tryggingasvik erfiðari en tafði fyrir að umferðarhnútar leystust því bíða þurfti eftir lögreglu, dýralækni eða fulltrúa frá félagi gegn illri meðferð á dýrum.

En þótt búið væri að aflífa dýrið lá skrokkurinn oft á götunni svo dögum skipti. Hreinsunarmenn frá borginni létu náttúruna oft hafa sinn gang með hræið áður en þeir freistuðu þess að hluta það í sundur og flytja á brott. Rotnunin hjálpaði til við verkið.

Lýsingunni á dásemdum strætanna fyrir daga einkabílsins er hvergi nærri lokið

Hávaðinn frá járnuðum hestvögnum og hófum var slíkur að til hans mátti rekja margvíslegar taugabilanir. Í ýmsum borgum var umferð hesta um viðkvæm svæði eins og í kringum sjúkrahús bönnuð.

Líkurnar á því að vera fyrir hesti eða hestvagni voru miklar. Kvikmyndir gefa ekki góða mynd af því hvernig er að stýra hestakerru. Það var hægar sagt en gert að stjórna hesti  eða hestvagni um mannmergð í ys og þys stórborganna. Árið 1900 létust 200 manns í New York í hestaslysum. Það er 1 af hverjum 17 þúsund íbúum. Árið 2007 létust 274 í bílslysum í New York eða 1 af hverjum 30 þúsund íbúum. Þetta þýðir að það voru nær tvöfalt meiri líkur á því að deyja úr hestaslysi árið 1900 en bílslysi í dag.

Og anganin af tíðinni fyrir daga bílsins streymir áfram af síðum Superfreakonomics.

Verstur af öllu var þó úrgangurinn. Niður af hesti ganga um 12 kg á dag. Þegar hestarnir eru 200 þúsund gera það 2,4 milljónir kg af skít. Á dag. Hvað varð um þessi ósköp?

Áður en hestum fjölgaði svo mjög í borgum var markaður fyrir skítinn. Bændur úr nágrannasveitum keyptu hann einfaldlega sem áburð. En þegar fólki fjölgaði hratt í borgum varð ekki við neitt ráðið. Drullunni var hrúgað upp á opnum svæðum, í allt að 20 m háa hóla. Skíturinn lá eins og fönn yfir strætunum. Í sumarhitum var daunninn ægilegur og þegar rigndi flæddi hrossaskítssúpan um strætin og niður í kjallara til fólks. Þegar menn dást að fallegum byggingarstíl íbúðarhúsa í New York með veglegum tröppum upp að aðaldyrum er kannski rétt að hafa í huga að þetta var nauðsynlegt fyrirkomulag til að hefja sig upp úr taðinu.

Þetta skítaflóð var hrikalega heilsuspillandi. Milljarðar flugna sveimuðu úr súpunni og báru með sér alls kyns sjúkdóma. Rottur og önnur meindýr grömsuðu í drullunni eftir höfrum og annarri næringu sem farið hefði ómelt um maga hestsins. En vegna fjölgunar hesta í borgum varð korn dýrara en ella á matborð fjölskyldunnar. Enginn hafði áhyggjur af gróðurhúsaáhrifum á þessum tíma en vafalaust hefði hesturinn orðin óvinur númer eitt því rotnandi skítur gefur frá sér metan sem er öflugt gróðurhúsagas.

Yfirvöld reyndu auðvitað eitt og annað til að leysa þetta ókræsilega vandamál en allt kom fyrir ekki.

Svo leystist þetta allt saman einn góðan veðurdag, daginn sem einkabíllinn leysti hestinn af hólmi sem helsta samgöngutæki stórborganna.

Þetta gerðist ekki vegna þess að afskiptasamir stjórnmálamenn segðu fólki að nú þyrfti það að fara að „tileinka sér hestlausan lífsstíl“ heldur vegna tækniframfara.