„Maður hlýtur að spyrja sig hvort við megum eiga von á því að ofbeldisránum fjölgi og að þau verði grófari en áður þegar harðnar á dalnum í samfélaginu. Það er auðvitað óþarfi að mála skrattann á vegginn en við skulum heldur ekki loka augunum fyrir þessum möguleika,“ segir Vilhjálmur. Hann segir að langt leiddir fíkniefnaneytendur séu í raun sá hópur sem sé einna verst settur í okkar samfélagi. „Og það er með ólíkindum til hvaða örþrifaráða slíkir einstaklingar kunna að grípa til að fjármagna neysluna.“ |
– Viðtal Vísis við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson formann borgarráðs um svonefnd sprautunálarán. |
F yrir nokkrum árum herti Alþingi mögulegar refsingar við fíkniefnabrotum verulega. Dómstólar voru fljótir að nýta sér svigrúmið. Fyrir eitt dópsmygl eru menn nú dæmdir í áratugafangelsi eins og nýlegt dæmi er um. Þó liggur ekkert fyrir um að þessi refsigleði hafi dregið úr eymd vegna fíkniefnaneyslu. Miklu frekar má búast við því hér eins og annars staðar að harðar refsingar auki á hörkuna í þessari skuggalegu veröld. Þegar refsingar eru svo harðar sem raun ber vitni er hætt við að ofbeldi og hótanir um það aukist í viðskiptum með þessi varasömu efni. Það er búið að leggja þær línur að menn geti gert nær hvað sem er til að komast hjá því að fá dóm vegna fíkniefnaviðskipta, refsingin verði nær undantekningarlaust vægari en fyrir fíkniefnabrotið.
Markmiðið með hinum hertu refsingum er auðvitað að draga úr fíkniefnaneyslu. En fíkniefnaneysla er mjög persónulegur verknaður. Þrátt fyrir að fíkniefnasalar séu málaðir dökkum litum verður ekki framhjá því litið að það eru fíkniefnaneytendurnir sjálfir sem bera ábyrgð á neyslu sinni. Stríð yfirvalda við fíkniefnasalana hefur ekki skilað sér í minnkandi neyslu. Það verður heldur ekki séð að fíkniefnaneytendur séu betur settir að þurfa að eiga viðskipti við menn sem svífast einskis. Það dregur ekki úr hættunni á því að menn grípi til örþrifaráða til að fjármagna neysluna og til að eiga fyrir skuldinni við dílerinn.
Hér að ofan er vitnað í viðtal við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson formann borgarráðs um nokkur rán sem framin voru í Reykjavík um helgina. Ræningjarnir munu hafa otað sprautunálum að starfsmönnum verslana sem þeir reyndu að ræna. Vilhjálmur virðist átta sig á mikilvægi þess að kljást við fíkniefnavandann með því að sinna fíklunum sjálfum.
Hins vegar megum við aldrei gleyma því að heilladrýgstu viðbrögðin við svona afbrotum felast í forvarnarstarfi, góðum grunnskólum, traustum fjölskylduböndum, fjölbreyttu og hvetjandi umhverfi og raunhæfum meðferðarúrræðum. |
Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að gera Vilhjálmi upp þá skoðun að hann vilji hætta stríði yfirvalda við fíkniefnasalana. Það er bara tilbreyting að heyra stjórnmálamann tala þannig um þessi mál að ætla má að hann skilji hvar vandinn liggur, hjá fíklunum en ekki þeim sem útvega þeim efnin. Að menn geri sér grein fyrir þessu er fyrsta skrefið í áttina að því að yfirvöld hætti að magna vandann með vonlausum eltingarleik við dópsalana.